Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Þó að Umhverfisstofnun fylgist með svifryksmengun á Suðurlandi í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli er langt frá því að hægt sé að mæla styrkinn alls staðar. Stofnuninni hafa borist margar spurningar sem beinast að því hvernig sé hægt að greina styrk svifryks út frá öðru en mælingum. Umhverfisstofnun hefur því borið saman myndir frá vefmyndavél Mílu ehf. á Hvolsvelli við mælingar á því svæði og reynt að meta hvert skyggni er miðað við styrk svifryks.

Hér má sjá stutt myndskeið sem tekið er saman af Umhverfisstofnun sem lýsir þessu að einhverju leyti. Gott er að nota myndskeiðið sem viðmið, en ýmsir aðrir þættir geta haft áhrif á útkomuna og því er þetta ekki svona í öllum tilfellum. Myndir eru fengnar með leyfi frá Mílu ehf.

Athygli er vakin á því að mannsaugað sér betur en myndavélaauga og aðlagar sig betur að aðstæðum og því eru þetta aðeins gróf viðmið sem þó er hægt að notast við þegar verið er að meta loftgæði. Gott er að nota hluti úr umhverfinu sem viðmið til að áætla skyggni, s.s. hús, hæðir, fjöll, staura og annað, til að meta hversu vel þeir sjást í fjarlægð. Ýmsir þættir geta haft áhrif á það hve vel hlutirnir sjást, svo sem hæð, áferð og litur þess hlutar sem miðast er við, en hlutir í sterkum litum sjást í meiri fjarlægð en aðrir í daufum litum.

Hér að neðan má sjá viðmiðunartöflu sem gefur til kynna mögulegt skyggni miðað við styrk svifryks.

Skyggni

Styrkur Svifryks (µg/m3)

Loftgæði

Yfir 35 km

0-50

Góð

16-35 km

50-100

Sæmileg

um 16 km

100-150

Léleg

um 4 km

150-400

Slæm

um 1,5 km

500-1000

Mjög slæm

um 1 km

1000-2000

Mjög slæm

um 400 m

2000-3000

Mjög slæm

minna en 400 m

4000+

Mjög slæm

Hér má sjá glærurnar