Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Höfundur myndar: Þorsteinn Jóhannsson

Umhverfisráðherra hefur gefið út reglugerð nr. 514/2010 um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Markmið reglugerðarinnar er að lágmarka loftmengun af völdum brennisteinsvetnis, setja umhverfismörk fyrir styrk þess í andrúmslofti sem miða að því að fyrirbyggja eða draga úr skaðlegum áhrifum á heilbrigði manna og umhverfið í heild, og tryggja nægilegar mælingar á styrk brennisteinsvetnis og miðla upplýsingum til almennings þar um.

Helstu atriði reglugerðarinnar eru að með henni eru í fyrsta skipti sett eru heilsuverndarmörk fyrir brennisteinsvetni og eru þau við 50 míkrógrömm í rúmmetra að meðaltali yfir 24 klukkustunda tímabil. Gefið er ákveðið aðlögunartímabil þannig að til að byrja með verður leyfilegt að fara 5 sinnum á ári yfir þessi mörk en eftir 1.júlí 2014 verður ekki leyfilegt að fara yfir mörkin. Þá er kveðið á um skyldur til að hamla gegn loftmengun af völdum brennisteinsvetnis og um miðlun upplýsinga og tilkynningar til almennings þegar vart er hækkunar á styrk þess. Almenningur skal þannig upplýstur ef styrkur brennisteinsvetnis mælist yfir 150 µg/m3 samfellt í þrjár klukkustundir.

Með aukinni nýtingu jarðhita á Íslandi síðustu ár hefur losun brennisteinsvetnis út í andrúmsloftið aukist. Losun brennisteinsvetnis frá jarðhitavirkjunum mælist nú þegar í tugþúsundum tonna á ári og er orðinn langstærsti hlutinn af losun brennisteinssambanda út í andrúmsloftið frá Íslandi. Brennisteinsvetni getur haft áhrif á gróður, mannvirki og heilsu fólks og því þótti nauðsynlegt að setja reglur um leyfilegan styrk þess í andrúmslofti. Eftir að nýting jarðhita var aukin á Hellisheiðarsvæðinu fyrir fáum árum hefur mælst mun meiri styrkur brennisteinsvetnis í Reykjavík. Síðustu misseri hefur verið nokkuð um kvartanir á höfuðborgarsvæðinu þegar fólk hefur fundið fyrir óþægindum vegna sterkrar lyktar af brennisteinsvetni.