Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Höfundur myndar: Þorsteinn Jóhannsson

Undanfarna daga hefur borið á öskumistri á Suðurlandi sem náð hefur til höfuðborgarsvæðisins. Mistrið er truflun í skyggni vegna ösku sem veldur svifryksmengun. Þar sem ekki er um sýnilegt öskufall eða öskurok að ræða er almennt ekki ástæða til sérstakra aðgerða.

Þegar öskumistur er til staðar eða aukin svifryksmengun mælist þá er einstaklingum með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma ráðlagt að halda sig sem mest innandyra en notkun gríma er óþörf. Svifryksmengun þessa dagana á höfuðborgarsvæðinu er svipuð og oft verður t.d. vegna umferðar eða sandfoks frá hálendinu. Viðvaranir sem kunna að koma frá heilbrigðiseftirlitum eru í samræmi við það.

Ekki er vitað til þess að heilbrigt fólk og þar með talin börn séu í sérstakri hættu vegna öskumisturs. Ef öskumistrið er sérstaklega áberandi er skynsamlegt fyrir börn að forðast að vera mikið úti við leik.

Notkun gríma er ekki ráðlögð nema þegar sýnilegt öskufall eða öskurok er til staðar og fólk er úti við.

Sóttvarnalæknir