Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Höfundur myndar: Bergþóra Kristjánsdóttir

Árið 2010 hefur verið útnefnt ár líffræðilegrar fjölbreytni og í dag 22. maí er alþjóðlegur dagur líffræðilegrar fjölbreytni.

Stöðugt hefur dregið úr líffræðilegri fjölbreytni á undanförnum áratugum. Maðurinn hefur haft mikil áhrif á vistkerfin, t.d. með mengun og landbúnaði. Í kjölfar langvinnrar hnignunar líffræðilegrar fjölbreytni var Samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni samþykktur árið 1992 og hefur Ísland verið aðili að honum frá því að hann gekk í gildi árið 1993. Samningurinn hefur þrjú megin markmið: að líffræðileg fjölbreytni sé varðveitt, að nýting lífríkisins sé sjálfbær og að hagnaði vegna nýtingar erfðaauðlinda sé jafnt skipt.

Skilningur margra á hugtakinu líffræðileg fjölbreytni felur aðeins í sér fjölda tegunda planta og dýra en í raun hefur hugtakið mun víðari merkingu. Með líffræðilegri fjölbreytni er átt við fjölbreytni milli tegunda, innan tegunda og vistkerfa. Á Íslandi eru mörg svæði þar líffræðileg fjölbreytni er mikil. Mývatn er gott dæmi um slíkt svæði.

Mývatn sjálft, ásamt Laxá sem fellur úr því, er eitt frjósamasta ferskvatn hér á landi. Mývatn er meðal stærstu vatna á Íslandi, um 37 km2 að stærð. Vatnið er grunnt, meðaldýpi þess er 2,5 m en mesta dýpi aðeins um 4 m. Lífríkið við Mývatn er einstætt og sérstaklega fjölbreytt. Það byggir að miklu leyti á næringarríku jarðvatni, mikilli sólargeislun og hagstæðu vatnsdýpi fyrir botngróður og varpfugla. Fuglalíf er með afbrigðum mikið, einkum vatna- og votlendisfuglar og silungsveiði er góð.

Lífríki vatnsins

Vegna þess hve grunnt vatnið er getur gróður þrifist á öllum vatnsbotninum. Þar er að finna mjög fjölbreyttan botngróður, til að mynda þráðnykru, síkjamara, hjartanykru, lónasóley og vatnamara sem er sjaldgæfur utan Mývatns. Liðlega 50 tegundir kísilþörunga eru þekktar í vatninu. Mikill vöxtur kísilþörunga í vatninu er undirstaða fæðukeðjunnar og jafnframt þeirrar líffræðilegu fjölbreytni sem er að finna á svæðinu en mýlirfur og krabbadýr nærast á kísilþörungum sem eru svo aftur mikilvæg fæða fugla og fiska. Um 40 tegundir af mýi hafa fundist í og við vatnið og ekki er óalgengt að um 200.000 lirfur finnist á hverjum fermetra á botni vatnsins. Auk mýflugulirfanna eru krabbadýr algeng en einnig finnast ýmsir sniglar, blóðsugur, liðormar, flatormar og holdýrið hydra.

Á botni Mývatns er að finna mjög sérstakt, kúlulaga vaxtarafbrigði af grænþörung sem gengur undir nafninu kúluskítur. Kúluskítur er aðeins þekktur í tveimur vötnum í heiminum, Mývatni og Akanvatni í Japan. Á botni Mývatns myndar kúluskíturinn allstórar breiður, stundum í tveimur eða þremur lögum. Athygli vekur að kúlurnar eru allar svipaðar að stærð, 10-15 cm í þvermál. Ekki er vitað hvernig kúlurnar verða til né hve gamlar þær eru.

Í vatnsmassanum er að finna ýmsar svifþörungategundir, einkum kísilþörunga, gullþörunga og blágrænuþörunga. Helstu svifdýr sem finnast í vatnsmassanum eru langhalafló og fjölmargar tegundir árfætla og hjóldýra. Í Mývatni er að finna þrjú afbrigði bleikju, hefðbundna bleikju, krús og gjáarlontu. Þar eru jafnframt urriði og hornsíli og eru því að finna í vatninu þrjár af fimm tegundum íslenskra ferskvatnsfiska.

Fuglalíf

Fuglalíf á og við Mývatn er mjög fjölskrúðugt. Endur setja mestan svip á fuglalífið í Mývatnssveit en við Mývatn og Laxá verpa allar íslenskar andategundir að brandönd undanskilinni, þar á meðal tegundir sem eiga allt sitt undir þeim sérstæðu lífsskilyrðum sem þar ríkja. Húsandastofninn byggir tilvist sína á vatnakerfi Mývatns og Laxár og heldur til þar allt árið. Stærsta flórgoðabyggð landsins er í Mývatnssveit. Auk flórgoða og húsandar eru tvær tegundir sem óvíða finnast annarsstaðar hér á landi, hrafnsönd og gargönd. Á Mývatni hafa einnig sést aðrar andategundir sem ekki flokkast sem íslenskar, t.d. hringönd, hrókönd og hvítönd. Flestar andategundirnar yfirgefa svæðið á haustin, en þó eru nokkrar tegundir sem hafa vetursetu í Mývatnssveit, t.d. húsönd, stokkönd og gulönd.

Aðrar algengar fuglategundir við vatnið eru óðinshanar, álftir, grágæsir og heiðagæsir. Nokkur pör af himbrima og lóm verpa í Mývatnssveit, hettumáfar og kríur eru algengar. Flestallar tegundir vaðfugla, spörfugla og ránfugla sem finnast hér á landi hafa sést í Mývatnssveit. Rjúpur eru algengar, allmörg fálkapör verpa í nágrenni vatnsins, fáein brandugluhjón og nokkrir smyrlar.

Gróðurfar

Mikill gróður er við Mývatn. Birki er mest áberandi norðan og austan við vatnið en mýrlendi og engjar með tjarnastör, vetrarkvíðastör, hrísi, lyngi, gulvíði og birki að vestan og sunnanverðu. Eyjar og hólmar og vatnsbakkinn sums staðar eru vaxnir birki, víði, hvönn, brennisóley og mývatnsdrottningu. Af öðrum algengum plöntum á svæðinu má nefna loðvíði, túnsúru, músareyra, engjarós, fjalldalafífil, holtasóley, dýragras, blóðberg, lyfjagras og vallhumal auk fjölda annarra tegunda.

Dýralíf

Óvenju mikið er af köngulóm í Mývatnssveit. Þar er að finna hrískönguló og randakönguló sem eru sjaldgæfar utan svæðisins auk fleiri algengra tegunda. Hagamýs eru algengar. Refir eru sjaldgæfir nú á dögum en algengari í hraunum og heiðarlöndum í nágrenni Mývatns. Minkur komst inn á svæðið á sjöunda áratug síðustu aldar en hefur verið haldið í skefjum.

Verndun

Mývatn og Laxá voru vernduð með lögum. Þremur árum eftir að svæðið var verndað fyrst, eða árið 1977 var svæðið samþykkt sem Ramsarsvæði, þ.e. votlendi sem hefur alþjóðlegt mikilvægi. Í heild er Ramsarsvæðið um 200 km2.

Út frá framangreindu má sjá að Mývatnssvæðið hefur yfir að búa mikilli líffræðilegri fjölbreytni, bæði innan tegunda og milli tegunda. Vistkerfi svæðisins eru ólík og fjölbreytt. Í heild sinni gegnir Mývatnssvæðið mikilvægu hlutverki við verndun líffræðilegrar fjölbreytni.