Stök frétt

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Umhverfisstofnun Evrópu opnuðu nýlega vefsíðu með ítarlegri skrá um losun og dreifingu mengandi efna (E-PRTR). Upplýsingar eru aðgengilegar í gegnum landakort af Evrópu. Skráin geymir upplýsingar um magn og staðsetningu mengunar af völdum iðnaðar sem er losuð út í andrúmsloftið, vatn eða jarðveg. Upplýsingar um 91 efni frá yfir 24.000 fyrirtækjum í 65 iðnaðargreinum er að finna í skránni. Einnig eru upplýsingar um magn og gerð úrgangs sem eru flutt frá fyrirtækjum til meðhöndlunar innanlands sem utan í hverju landi fyrir sig.

Umhverfisráðherra Evrópusambandsins, Stavros Dimas: „Gagnsæi er nauðsynlegt til þess að vernda gæði umhverfisins. Ég fagna að þessar upplýsingar eru nú öllum aðgengilegar. Opinberir aðilar og iðnaðurinn hafa skuldbundið sig til þess að deila upplýsingum með borgurum í anda opinnar stjórnsýslu. Samstarf þessara aðila er þakkarvert."

Prófessor Jacqueline McGlade, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Evrópu: „Til þess að ná markmiðum um almenningsþátttöku sem voru sett í Árhúsarsamkomulaginu verður fólk að vita fyrir hvaða áhrifum umhverfið verður og hvað sé í húfi. Með þessari nýju skrá höfum við tekið mikilvægt skref í átt til þess með því að veita aðgang að þessum upplýsingum. Hver sem er getur nú séð hversu mikil losun mengandi efna er í þeirra nágrenni eða á nálægum svæðum."

Yfir hvað nær skráin?

Til þess að auka aðgang almennings að umhverfisupplýsingum hefur ný skrá verið sett upp, E-PRTR. Skráin inniheldur upplýsingar frá einstökum fyrirtækjum. Reglugerðin var innleidd á Íslandi árið 2008. Upplýsingar frá Íslandi verða því ítarlegri þegar skráin er uppfærð fyrir árið 2008.

Gefnar eru upplýsingar um losun mengandi efna út í andrúmsloftið, vatn og jarðveg frá tilteknum fyrirtækjum árið 2007 og upplýsingar svo uppfærðar í apríl ár hvert. Skráin nær yfir 30% af heildarlosun NOx (nituroxíð) (það er meirihluti losunar frá öðrum þáttum en samgöngum) og 76% af heildarlosun SOx (brennisteinsoxíðs) út í andrúmsloftið í EU-27 löndunum auk Noregs. Skráin sýnir einnig magn úrgangs og skólps sem er flutt til annarra staða, þar á meðal flutning hættulegs úrgangs milli landamæra, og gefur frumupplýsingar um mengandi efni frá dreifðum uppsprettum sem eru losaðar í vatn, svo sem nítrógen og fosfór losun frá landbúnaði.

Vefsvæðið er með öfluga leitarvél sem gerir notendum hennar kleift að leita að mörgum þáttum í einu og einnig er gagnvirkt kort. Til dæmis getur notandi leitað að magni hættulegs og ekki-hættulegs úrgangs sem er fluttur frá einni aðstöðu í tilteknu landi (waste search), eða losun frá ákveðnu iðnaðarsvæði með nafni eða staðsetningu (facility search).

Hvaða upplýsingar er hægt að nálgast?

E-PRTR leiðir, til dæmis, í ljós:

  • Í mörgum tilfellum er það svo að nokkur fyrirtæki eiga stóran hluta af losun mengandi efna í Evrópu. Til dæmis bera fimm stórar brennslustöðvar ábyrgð á meira en 20% allrar brennisteinsoxíðslosunar út í andrúmsloftið sem skráð var í E-PRTR árið 2007. Brennisteinsoxíð hafa áhrif á súrt regn og myndun heilsuskaðlegs svifryks.
  • Meira en 54 milljónir tonna af hættulegum úrgangi var fluttur frá aðstöðum sem eru skráð í E-PRTR. Stærstur hluti hættulegs úrgangs var endurheimtur eða meðhöndlaður í því landi sem hann fellur til en um 6% eru flutt á milli milli landa.