Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Höfundur myndar: Kristinn Már Ársælsson

Tæting og förgun tóbaks frá Póllandi hefur verið stöðvuð að beiðni Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun mun hafa samband við yfirvöld í Póllandi vegna málsins og í framhaldinu taka frekari ákvarðanir í málinu, þ.m.t. um mögulega endursendingu.

Í Morgunblaðinu þann 11. feb. sl. var sagt frá því að nú stæði yfir tæting og förgun á tóbaki sem flutt hefði verið til landsins frá Póllandi. Í fréttinni kom fram að aldrei hefði staðið til að selja tóbakið hér á landi því hingað hefði það verið flutt í þeim eina tilgangi að farga því. Umhverfisstofnun hóf athugun málsins þar sem óheimilt er að flytja úrgang til förgunar hér á landi nema fyrir liggi tilskilin leyfi.

Meginreglan varðandi förgun úrgangs er sú að förgun fari fram í því landi sem úrgangurinn fellur til og byggir hún meðal annars á því að koma í veg fyrir að fátæk ríki verði að förgunarstöðum fyrir auðug ríki. Óheimilt er að flytja úrgang milli landa til förgunar nema að fengnum tilskildum leyfum. Heimilt er að flytja endurvinnanleg efni á milli landa til endurvinnslu.

Við athugun Umhverfisstofnunar fékkst staðfesting hjá Rolf Johansen & Co ehf., sem stóð að þessum innflutningi, að tóbakið hefði verið flutt til landsins í þeim eina tilgangi að farga því. Umhverfisstofnun telur því ljóst að áður en ráðist var í innflutninginn hafi legið fyrir að um úrgang væri að ræða, en ekki vöru, og því hafi verið skylt að tilkynna innflutninginn til stofnunarinnar og óska eftir leyfi hennar. Þar sem stofnuninni barst ekki tilkynning um innflutninginn og veitti ekki leyfi fyrir honum telur stofnunin að hér hafi verið um að ræða ólögmætan flutning úrgangs til landsins.