Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Á síðasta ári fékk Landhelgisgæslan nýja eftirlits- og leitarflugvél og er hún búin margvíslegum búnaði til mengunareftirlits. Koma vélarinnar boðar byltingu í eftirliti, s.s. með mengun á hafsvæðinu umhverfis Ísland. Fulltrúar Umhverfisstofnunar kynntu sér vélina á dögunum.

Fulltrúum Umhverfisstofnunar, umhverfisráðuneytisins og Landmælinga Íslands var boðið í kynnisferð þar sem tækjakosturinn var sýndur og ræddir möguleikar á nýtingu búnaðarins. Verður að segjast að auk hinna gríðarmiklu möguleika sem vélin gefur í eftirliti með mengun hafs og stranda, og viðbúnaði og viðbrögðum við bráðamengun, komu fjölmargir aðrir kostir fram, s.s. við veiðieftirlit, eftirlit með utanvegaakstri, margvíslega mengun frá landi og vöktun á umhverfisþáttum og landbreytingum. Þátttakendur í ferðinni voru sammála um að möguleikarnir á nýtingu flugvélarinnar og tækja hennar takmörkuðust einungis við hugmyndaflug viðkomandi stofnana.