Stök frétt

Umhverfisstofnun hélt nýlega málþing um náttúruvernd þar sem rætt var um jarðfræðilega fjölbreytni. Flutt voru mörg áhugaverð erindi, þar á meðal um landslagsheildir, laus jarðlög, háhitasvæði og steintegundir. Þeir sem fluttu erindi voru á einu máli um að nauðsynlegt væri að huga betur að verndun jarðfræðilegrar fjölbreytni á Íslandi.

Töluvert hefur verið gengið á þessa náttúruauðlind á undanförnum áratugum, meðal annars vegna framkvæmda og aukins fjölda ferðamanna. Því þarf að veita jarðminjum og landslagi meiri athygli en gert hefur verið. Landslag, jarðlög og ýmis jarðfræðileg svæði á Íslandi eru mjög verðmæt og sum hver óendurnýjanleg – nema litið sé til mjög langs tíma. Fram kom í erindi Þóru Ellenar að hugsanlega mætti tala um landslag sem þjóðartákn Íslendinga.