Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur bætt þjónustu sína á sviði upplýsingamála. Stofnunin hefur að undanförnu sent út fundi í beinni útsendingu sem eru svo aðgengilegir á vef stofnunarinnar. Einnig hafa námskeið, fyrirlestrar og starfsmannafundir verið sendir út í gegnum netið.

Umhverfisstofnun sendi nýlega út í beinni útsendingu Málþing um hljóðvist í leik- og grunnskólum. Málþingið er nú aðgengilegt hér á vef Umhverfisstofnunar. Almenningi býðst með þessum hætti að sækja fundi í gegnum vefinn á rauntíma. Upplýsingar sem koma fram á fundum hafa hingað til að meginstefnu til aðeins náð til þeirra sem höfðu tök á að mæta á fundinn. Nú geta allir sótt sér þær upplýsingar, hvenær sem er.

Starfsmenn Umhverfisstofnunar geta nú fylgst með og tekið þátt í öllum atburðum á vegum stofnunarinnar hvar sem þeir eru staddir í heiminum svo lengi sem þeir komast í nettengingu. Umhverfisstofnun er með starfsstöðvar um allt land og tekur þátt í umfangsmiklu erlendu samstarfi m.a. vegna EES-samningsins. Þessi tæknilausn er mikilvægt skref fyrir stofnunina til að stytta fjarlægðir og auka upplýsingastreymi. Starfsmenn sem ekki komast á fundi geta svo horft á þá á netinu síðar.

Þessi nýjung hefur mælst vel fyrir og verður nýtt í auknum mæli á næstunni. Hingað til hefur aðeins verið hægt að taka þátt í vinnufundum í gegnum síma. Lifandi myndir bæta við það sem sagt er. Fleiri geta nú sótt fundi sem áður gátu ekki og líklegt má telja að með þessu sparist kostnaður vegna ferða.

Ör þróun bæði í tækni og hugbúnaði gerir það kleift að miðla myndefni í rauntíma með einföldum og ódýrum hætti. Líklegt er að sú þróun muni halda áfram og að fleiri og betri valmöguleikar muni standa til boða á næstu misserum. Þessi tæknilausn krefst aðeins góðrar vefmyndavélar og ókeypis hugbúnaðar á netinu.