Stök frétt

Umhverfisstofnun boðar til samráðsfunda með flugrekendum um nýlega löggjöf ESB um viðskipti með losunarheimildir þann 1. september næstkomandi. Tilskipun 2008/101/EB felur í sér að frá 1. janúar 2012 verður allt flug innan ESB og milli ESB og þriðju ríkja háð losunarheimildum. Tilskipunin er ekki orðin hluti EES-samningsins og hefur því ekki verið innleidd hér á landi. Engu að síður er þörf á að hefja þegar tilteknar undirbúningsaðgerðir, m.a. upplýsingasöfnun, til að tryggja megi hagsmuni flugrekenda hér á landi.

Réttarstaða flugrekenda er ólík eftir því hvort þeir stunda starfsemi á ESB-svæðinu eða ekki. Þar sem gildissvið tilskipunar 2008/101/EB tekur til flugs inn og út úr ESB er ljóst að flugrekendur sem skráðir eru hér á landi og starfa á ESB-svæðinu falla undir kerfið óháð upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn. Aðrir flugrekendur hér á landi, þ.e. þeir sem eingöngu fljúga innanlands eða til ríkja utan ESB, verða á hinn bóginn ekki þátttakendur í kerfinu fyrr en tilskipunin hefur verið tekin upp í EES-samninginn.

Þetta er í annað sinn sem Umhverfisstofnun heldur fund með flugrekendum um tilskipun 2008/101/EB, en hún var kynnt með almennum hætti á fundi hinn 14. júlí sl. Nú verður rætt ítarlegar um einstaka þætti tilskipunarinnar, einkum þá er varða upplýsingagjöf, og fjallað um undirbúningsráðstafanir sem vinna þarf að á næstu mánuðum.

Fundirnir verða haldnir þriðjudaginn 1. september næstkomandi í húsakynnum Umhverfisstofnunar að Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Nánari tímasetning fundanna er sem hér segir:

  • Kl. 10:00 Samráðsfundur fyrir flugrekendur sem fljúga innanlands / til ríkja utan ESB
  • Kl. 13:00 Samráðsfundur fyrir flugrekendur sem starfa á ESB-svæðinu

Umhverfisstofnun hvetur flugrekendur til að mæta á fundinn, enda um mikilvæga hagsmuni að ræða.