Stök frétt

Komið hefur fram í fjölmiðlum að koparflís úr riffilkúlu hafnaði í fæti konu sem var í fylgd með hreindýraveiðimönnum á veiðislóð hreindýra á Fljótsdalsheiði. Sem betur fer eru slys afar fátíð á hreindýraveiðum en aldrei er of varlega farið. Nú fer í hönd sá tími sem flestir hafa undanfarin ár nýtt til veiðanna. Mikilvægt er að veiðimenn og fylgdarmenn þeirra sýni fyllstu aðgæslu og fari í einu og öllu eftir þeim fyrirmælum sem leiðsögumenn þeirra gefa.

Á veiðitíma er reynt að tryggja að menn viti hver af öðrum á fjalli og brýnt er fyrir leiðsögumönnum að vera í sambandi hver við annan á veiðislóð. Leiðsögumenn skila á tveggja ára fresti inn staðfestingu á að þeir hafi sótt námskeið í skyndihjálp sem tryggir að þeir séu sem hæfastir við að bregðast við slysum sem upp geta komið. Í Veiðidagbók ársins 2009 sem Umhverfisstofnun gefur út eru greinar um hættusvið og endurkast haglaskota. Auk þess eru greinar í um hættusvið riffilkúlna og endurkast þeirra í bókinni Veiðar á villtum fuglum og spendýrum eftir Einar Guðmann, sem kennd er á veiðikortanámskeiðum Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun vill minna veiðimenn á að fara alltaf með gát á veiðslóð og umgangast ávallt skotvopn sem þau væru hlaðin.