Stök frétt

Síðastliðna 12 daga hafa landverðir í Mývatnssveit vaktað fálkahreiður og unga í Dimmuborgum. Starfið hefur falist í því að koma í veg fyrir að fólk trufli fálkana og skemmi viðkvæman gróður svæðisins ásamt því að fræða ferðamenn um fálkana og leyfa þeim að skoða þá í gegnum sjónauka. Óhætt er að fullyrða að vera landvarða og fálka á svæðinu hafi vakið mikla lukku. Oft á tíðum myndaðist löng biðröð við sjónaukann enda margt um manninn á svæðinu og margir höfðu áhuga á því að berja fálkana sjónaukaaugum.