Stök frétt

Umhverfisstofnunar hélt vel heppnaða ráðstefnu um vatnatilskipun ESB 31. október s.l. Umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir opnaði ráðstefnuna og fjallaði hún í opnunarávarpi sínu um tengsl vatnalaganna og vatnatilskipunarinnar og ræddi skýrslu vatnalaganefndar, sem skilaði nýlega af sér skýrslu um ný vatnalög og önnur lög er lúta að vatni hérlendis.

Ráðstefnan var tvískipt, í fyrri hlutanum var fjallað um stjórnsýslu og lífríki en í seinni hluta hennar var fjallað um aðkomu almennings og annarra stofnana að innleiðingu tilskipunarinnar. Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar ræddi markmið ráðstefnunnar og tilgang vatnatilskipunarinnar, sérstaklega verndarsjónarmið þau sem koma skýrt fram í vatnatilskipuninni. Hún tók fyrir þau helstu meginmarkmið sem hafa þarf að leiðarljósi við áframhaldandi vinnu og hvatti aðila og stofnanir til að taka höndum saman um þau úrlausnarefni sem framundan eru. Kristín Linda boðaði að stofnunin myndi á allra næstu dögum setja á fót vinnuhópa til þess að takast á við þessi verkefni. Umhverfisráðuneytið kynnti að fljótlega yrði farið að vinna að lagasetningu við innleiðingu tilskipunarinnar og stjórnsýsluna vegna hennar. Á ráðstefnunni voru flutt 16 erindi um hinar ýmsu hliðar vegna innleiðingar tilskipunarinnar. Kynnt var staða mála varðandi þekkingu sem liggur fyrir hjá ýmsum stofnunum sem nota má sem grunn til að byggja á flokkunarkerfi fyrir vistgerðir og vistgæði, og svo vatnafræðilegar flokkanir. Á ráðstefnunni kom ennfremur fram að jarðfræði Íslands mótaði lífríki í vötnum, hér á landi væru fáar tegundir með almennari útbreiðslu í vistkerfum en þekkt er annars staðar. Kynnt var margbreytt búsetuálag á vistkerfi og lýst rannsóknum sem gerðar hafa verið á vistkerfum í vatni. Sagt frá því að vatnasvið á landinu væru mörg, fá stór vatnasvið og mörg lítil. Varðandi strandsjóinn kom fram að hann er ágætlega vaktaður af Hafrannsóknarstofnuninni, en farið er fjórum sinnum á ári á fasta sýnatökustaði. Eftir hádegi voru fyrirlestrar um aðkomu almennings og hagsmunasamtaka þeirra, ný Náttúruvefsjá kynnt, og erindi um áhrif landgræðslu og landvarna, vegagerðar og virkjana á vötn. Hlutverk nýrrar Veðurstofu Íslands og tengsl hennar við vatnatilskipunina og aðrar tilskipanir kynnt, skipulagsmál innan vatnasvæða og að lokum aðkoma sveitarfélaganna að vatnatilskipuninni.

Opnar og líflegar umræður sköpuðust um mörg málefni ráðstefnunnar og það var mat ráðstefnugesta að ráðstefnan hefði verið gagnleg og tímabær.

Umhverfisstofnun þakkar öllum sem aðstoðuðu við undirbúning og tóku þátt í ráðstefnunni sem gerðu hana að því sem hún varð.

Fyrirlestrar sem fluttir voru á ráðstefnunni verða birtir á heimasíðu Umhverfisstofnunar á næstu dögum.