Stök frétt

Laugardaginn 1. nóvember hefst rjúpnaveiðitímabilið og stendur til 30. nóvember. Veiði er heimil fjóra daga vikunnar, fimmtudaga, föstudaga, laugardaga og sunnudaga. Veiðidagar verða því 18 eins og á síðasta ári. Bann við sölu á rjúpum og rjúpnaafurðum gildir enn. Griðland rjúpu verður áfram á Suðvesturlandi.

Að mati Náttúrufræðistofnunar hefur orðið óvænt þróun í rjúpnastofninum í ár. Fækkunarskeið virðist afstaðið, kyrrstaða er um landið vestanvert en aukning á austanverðu landinu. Náttúrufræðistofnun ráðleggur að heildarveiði á þessu ári fari ekki yfir 57 þúsund rjúpur.

Árið 2007 varð talsverð fækkun í rjúpnastofninum frá árinu áður og voru rjúpnaskyttur hvattar til að veiða hóflega. Það er ánægjulegt að greina frá því að veiðimenn tóku almennt vel í þá hvatningu og var veiði síðasta árs nokkuð nærri áætluðu veiðiþoli rjúpunnar.

Undanfarin ár hafa skotveiðimenn brugðist vel við óskum umhverfisráðuneytisins um hófsamar og ábyrgar veiðar. Ég vil hvetja skotveiðimenn til þess að leggja sitt af mörkum og skjóta ekki fleiri rjúpur en þeir þurfa fyrir sig og sína. Þannig stuðla þeir að því að áfram verði gengið til rjúpna á Íslandi um ókomna framtíð. Að lokum óska ég rjúpnaskyttum ánægjulegrar útivistar í íslenskri náttúru.

undirskrift_thorunnar_sveinbjarnardottur


Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra.