Stök frétt

Haustfundur Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga, Umhverfisstofnunar, Matvælastofnunar, með þátttöku frá umhverfisráðuneyti og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti var haldinn dagana 14. og 15. okt sl. Sú nýbreytni var höfð á að samtök heilbrigðiseftirlitssvæði skipulagði fundinn og einnig að þetta er fyrsti haustfundur eftir að Matvælastofnun var mynduð, en eins og kunnugt er þá fluttist öll starfsemi matvælasviðs Umhverfisstofnunar yfir til þeirrar stofnunar 1. janúar sl.

Fyrirkomulag fundarins var með þeim hætti að annars vegar voru flutt ávörp og erindi fyrir alla þátttakendur og hins vegar voru umræðuhópar þar sem einstök mál voru krufin. Eins og sést á dagskrá fundarins voru fjölmörg málefni tekin fyrir. Niðurstöður umræðuhópanna voru svo kynntar fyrir öllum fundarmönnum og málefnum vísað til fastra vinnuhópa til frekari úrvinnslu.

 

Í lok fundarins var samþykkt eftirfarandi ályktun:

Fundurinn skorar á Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytið og MAST að móta nú þegar framtíðarstefnu um heimavinnslu (Beint frá býli) og hefja nú þegar vinnu við gerð reglugerðar um heimavinnslu og sölu í samræmi við ákvæði c- liðar 2.mgr og 3. mgr. 1 gr. reglugerðar EB 852/2004.