Stök frétt

Umhverfisstofnun mun 31. október n.k. halda ráðstefnu um stöðu mála hérlendis vegna innleiðingar vatnatilskipunar Evrópusambandsins. Tilskipunin var samþykkt inn í EES samninginn í september 2007 og staðfest með þingsályktunartillögu í desember 2007. Lögleiðingu hennar þarf að ljúka haustið 2010, eða eftir tvö ár.

Við innleiðingu tilskipunarinnar þarf að taka saman yfirlit um vatn og ástand vatns hér á landi.

Ráðstefnan 31. október n.k. er haldin í þeim tilgangi að kalla saman þá sérfræðinga stofnana sem hafa á einn eða annan hátt unnið við að safna gögnum um vötn, hafa flokkað og skilgreint vötn og lífríki þeirra og fá þannig yfirlit yfir þau gögn sem til eru nú þegar í fórum viðkomandi stofnana. Einnig er tilgangurinn að fá sem mesta vitneskju um þau gögn sem til eru um ástand vatna og strandsjávar, áhrif vegagerðar, virkjana og landgræðslu á vötn. Í framhaldinu yrði svo skoðað hvaða gögn verða nýtt til samantektar og hvaða gögn vanti og leitað leiða til að afla þeirra á næstu árum. Við framkvæmd tilskipunarinnar eiga stjórnvöld að hvetja alla hagsmunaaðila til virkrar þátttöku, einkum hvað varðar stjórnunaráætlanir fyrir vatnasviðaumdæmi.

Ráðstefnan er haldin í bíosal Hótel Loftleiða föstudaginn 31. október og hefst kl. 9. Þeir sem vilja taka þátt í ráðstefnunni þurfa að skrá þátttöku sína hjá Umhverfisstofnun fyrir 29. október n.k.