Stök frétt

Út er komin skýrsla Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga; Könnun á varnaðarmerktum efnavörum í byggingavöruverslunum.

Byggingavöruverslanir hafa á boðstólum mikið úrval efnavöru en stórt hlutfall þeirra innihalda efni sem flokkast hættuleg. Reglur um flokkun og merkingu efnavara eru samræmdar á Evrópska efnahagssvæðinu. Samræmingin felur í sér hagræðingu enda eiga merkingarnar þá að vera alls staðar eins á svæðinu. Hönnun þeirra miðast við að þær séu einfaldar og auðskiljanlegar og yfirleitt er gerð krafa um að textamerkingar séu á þjóðtungu viðkomandi landa. Auk þess er gerð krafa um að á tilteknum hættuflokkuðum efnavörum sé áþreifanleg viðvörun fyrir sjónskerta og öryggislok til að tryggja öryggi barna. Með þessum hætti er stuðlað að heilsuvernd neytenda og dregið úr hættu á slysum og mengun umhverfis.

Könnunin var framkvæmd á 7 heilbrigðiseftirlitssvæðum þ.e. svæðum Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra og eystra, Heilbrigðiseftirlits Austurlands og Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða.

Megináhersla var lögð á að kanna íslenskar merkingar varanna, en einnig var athugað hvort bannvörur væru í sölu og hvort reglum um áþreifanlega viðvörun, öryggislok og öryggisblöð væri fylgt eftir. Kannaðar voru alls 2272 vörutegundir í 16 verslunum.

Helstu niðurstöður könnunarinnar eru að:

  1. 55% vara voru rétt merktar á íslensku, í 28% tilvika vantaði alfarið íslenskar merkingar en í 17% tilvika voru vörurnar merktar á íslensku en á ófullnægjandi hátt.
  2. Vanmerktar efnavörur fundust í öllum verslunum sem heimsóttar voru. Hlutfallið var þó afar mismunandi. Allt frá því að yfir 90% merkinga voru í lagi niður í 28% efnavaranna væru rétt merkt. Á heildina litið virðist hlutfall vanmerktrar vöru hækka eftir því sem verslanirnar stækka.
  3. Áþreifanlega viðvörun vantaði helst á innlendar efnavörur og vörur framleiddar utan Evrópu.
  4. Öryggisblöð á íslensku voru ekki til staðar í neinni verslun sem könnunin náði til.
  5. Eiturefni og bannvörur fundust í nokkrum verslunum

Heilbrigðiseftirlit sinnir eftirliti með merkingum efnavara á almennum markaði og veitir þannig ábyrgðaraðilum nauðsynlegt aðhald með því að gera kröfur í samræmi við lög og reglugerðir. Niðurstöður þessarar könnunar sýna að stöðugt efnavörueftirlit er nauðsynlegt.

Skýrslan á pdf formi.