Stök frétt

Í lok maí síðastliðnum samþykkti Alþingi lög um efni og efnablöndur. Þessi lög eru sett m.a. til þess að innleiða REACH, nýja reglugerð Evrópusambandsins um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir, að því er varðar efni (Registration, Evaluation, Authorisation and Restriction of CHemicals, REACH). Reglugerð Evrópusambandsins hefur í för með sér nýjar skyldur fyrir íslensk fyrirtæki sem framleiða eða flytja inn á Evrópska efnahagssvæðið  efni, efnablöndur eða hluti sem innihalda efni. Ein sú mikilvægasta er sú að efni, hvort sem það er hreint, í efnablöndu eða í hlut, sem framleitt er á Evrópska efnahagssvæðinu eða flutt inn á það, í meira magni en sem nemur 1 tonni á ári, á hvern framleiðanda/innflytjanda, skal skrá það hjá Efnastofnun Evrópu í Helsinki (ECHA). Bráðabirgðafrestir vegna skráningar eru gefnir fyrir efni sem hafa verið á markaði fyrir gildistöku REACH, en til að nýta sér þessa fresti verða fyrirtæki að forskrá efni sín á tímabilinu 1. júní 2008 – 1. desember 2008. Forskráning gefur fyrirtækjum einnig kost á að komast í samband við skráningaraðila sama efnis og deila með þeim gögnum til að koma í veg fyrir óþarfa rannsóknir. Þannig getur kostnaður fyrirtækja við skráningu efna lækkað. Ef fyrirtæki forskráir ekki efni sitt getur það ekki haldið framleiðslu þess eða innflutningi áfram fyrr en það hefur skráð það að fullu, samkvæmt ákvæðum REACH reglugerðarinnar. Einungis er hægt að forskrá á áður nefndu tímabili.

Aðrar nýjar skyldur eru t.d. tilkynningaskylda hættulegra efna í hlutum ef magn þeirra fer yfir 0,1% af þyngd hlutarins, miðlun upplýsinga um notkun og meðferð efna bæði upp til birgja, ef notkun er á einhvern hátt óvenjuleg eða nýstárleg, eða með því að afhenda öryggisblöð til þeirra sem nota efni eða efnablöndur í atvinnuskyni.

Gildistaka REACH reglugerðarinnar hefur víðtæk áhrif hér á landi þar sem gildisvið hennar spannar vítt svið. Hér er ekki einungis verið að fjalla um eiturefni og hættuleg efni eða efni sem notuð eru í miklu magni í iðnaði, heldur einnig algeng efni og efnablöndur  s.s. hreinsiefni og málningu, sem og efni í algengum hlutum eins og raftækjum, fötum og húsgögnum. Dæmi um fyrirtæki sem þurfa að kanna hvort þau hafi skyldum að gegna  samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins  gætu verið:

  • Innflytjandi vélahluta frá Kína sem einnig fær sent efni sem notuð eru við þjónustu þeirra eða viðgerðir.
  • Heildsölufyrirtæki eða verslanir sem flytja inn t.d. lím, smurolíu, tússpenna, hreinsiefni, leikföng, málningu eða lækningatæki frá löndum utan Evrópusambandsins.
  • Framleiðandi á raftækjum sem flytur inn sértæk efni til framleiðslunnar.
  • Framleiðandi hreinsi -og þvottaefna sem kaupir hráefni frá Evrópusambandslöndum og öðrum löndum.
  • Fyrirtæki sem nota efni í atvinnuskyni (t.d. bílaverkstæði)
  • Innflytjandi hluta, t.d. textílefna, sem innhalda hættuleg eða varasöm efni.

Það er því mikilvægt að hlutaðeigandi aðilar kynni sér vel þessa nýju reglugerð sem allra fyrst og hverjar þeirra skyldur eru. Ef fyrirtæki þarf að skrá efni er afar mikilvægt að taka þátt í forskráningunni  á næstu 6 mánuðum til að spara tíma og peninga.

Nánari upplýsingar um REACH reglugerðina má finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar,  og á heimasíðu Efnastofnunar Evrópu: http://www.echa.europa.eu