Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun fagnaði því að þrjátíu ár eru liðin frá heimsókn alþjóðlegra náttúruverndarsjálfboðaliða er hófu störf í þjóðgörðum og friðlýstum svæðum á Íslandi. Fyrstu sjálfboðaliðarnir tóku þátt í verkefni í Vesturdal í Jökulsárgljúfri árið 1978 hvar reistur var steinveggur um skála þjóðgarðsvarðar. Sá hópur var hluti af bresku teymi sem var í tengslum við ein stærstu sjálfboðaliðasamtök Bretlands, BTCV. Í framhaldi af þessari heimsókn bauð Náttúruverndarráð BTCV aftur til Íslands með það að markmiði að koma á fót sjálboðaliðastarfi hérlendis. Það tókst og voru stofnuð Sjálfboðaliðasamtök um Náttúruvernd sem enn starfa í dag.

Starf sjálboðaliða er mikilvægur hluti af náttúruvernd á Íslandi. Sjálfboðaliðar hafa unnið að margvíslegum verkefnum hérlendis síðustu áratugi, svo sem að stígagerð, merkingum, uppgræðslu, bættu aðgengi og ýmis konar viðhaldi svo eitthvað sé nefnt. Umhverfisstofnun hefur umsjón með sjálfboðaliðastarfinu og vinnur í nánu samstarfi við ýmis samtök og stofnanir, þar á meðal BTVC. Í sumar munu starfa yfir 200 sjálfboðaliðar sem skila rúmlega 600 vikna vinnuframlagi í þágu náttúruverndar. Sjálfboðaliðarnir starfa nú um allt land, meðal annars í þjóðgörðum en einnig annars staðar í samstarfi við ýmis samtök og stofnanir.

Í veislunni þakkaði ráðherra sjálfboðaliðum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og allra Íslendinga fyrir það óeigingjarna og mikilvæga starf er þeir hafa unnið hérlendis síðastliðna þrjá áratugi. Einnig vonaðist ráðherra eftir því að sjálfboðaliðastarfið héldi áfram að vaxa og dafna í framtíðinni. Rupert Evenett talaði fyrir hönd BTCV samtakanna og ræddi sérstaklega um hversu jákvæð félagsleg áhrif slíkt sjálfboðaliðastarf hefur, ekki aðeins fyrir sjálfboðaliðana sjálfa heldur einnig um áhrif sem leiða af verkum þeirra – svo sem auknum tækifærum til útivistar. Kristín Linda forstjóri Umhverfisstofnunar þakkaði sjálfboðaliðum fyrir vel unnin störf og veitti Charles Goemens örlítinn þakklætisvott fyrir það ötula starf sem hann hefur unnið á þessum vettvangi fyrir hönd stofnunarinnar. Charles hafði stuttu áður veitt fjórum sjálfboðaliðum sem samanlagt hafa unnið 20 sumur hérlendis veglegar gjafir í tilefni af afmælinu.