Stök frétt

Líkan að þjóðgarðsmiðstöð sem fyrirhugað er að reisa á Hellissandi á næstu árum verður til sýnis í Sparisjóði Ólafsvíkur til 6. júní. Líkanið er vinningstillaga arkitektastofunnar ARKÍS í samkeppni sem haldin var vorið 2006.

Fengist hefur fjárveiting í tengslum við mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn kvótaskerðingu í Snæfellsbæ til byggingar hússins, 50 milljónir á ári næstu fjögur árin. Stefnt er að því að opna þjóðgarðsmiðstöðina formlega á 10 ára afmæli þjóðgarðsins þann 28. júní 2011. Frá 9. júní verður líkanið til sýnis á gestastofu þjóðgarðsins á Hellnum sem er opin alla daga í sumar frá 10-18.