Stök frétt

Norræna umhverfismerkið

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Svanurinn hreiðraði um sig á Íslandi fyrir um 17 árum síðan. Umhverfisstofnun tók hann að sér og hefur reynt að huga vel að honum í gegnum tíðina.

Veljum umhverfi, heilsu og gæði

Viðurkennd umhverfismerki eins og Svanurinn auðvelda neytendum að velja gæðavörur sem eru vistvænni en flestar sambærilegar vörur á markaðnum. Með því að velja umhverfismerktar vörur hvetjum við fyrirtæki til að framleiða vistvænar vörur þar sem hönnun, framleiðsla og markaðssetning uppfylla ströng umhverfis- og gæðaskilyrði. Með því að framleiða og selja Svansmerktar vörur geta fyrirtæki tekið þátt í þessari þróun og um leið styrkt ímynd sína og viðskiptavild.

Hinn trausti Svanur

 Svanurinn hefur skapað sér ótvíræðan sess sem mikilvægasta og áreiðanlegasta umhverfismerkið á Norðurlöndunum, með mikla útbreiðslu og traust meðal neytenda. Nýlegar kannanir sýna að milli 75-97% fólks í nágrannaþjóðum okkar þekkja Svaninn og að meðaltali 74% segist bera mikið traust til merkisins. Á Íslandi hefur þekking á Svaninum verið talsvert minni en á hinum Norðurlöndunum og traust merkisins þar af leiðandi minna.

Efling Svansins

Nú er hafið átak hjá Umhverfisstofnun í því að efla verulega starfsemi Svansins á Íslandi með það að markmiði að Svanurinn verði leiðandi í innkaupum landsmanna og öðlist það traust sem hann á skilið hér á landi. Unnið verður að því að hlutfall Svansmerktrar vöru og þjónustu á markaði aukist stórlega og áhugi almennings og fyrirtækja á Svaninum og öðrum umhverfismerkingum verði efldur. Efling Svansins er í samræmi við metnaðarfulla stefnu Umhverfisstofnunar til næstu 5 ára um að unnið skuli markvisst að því umhverfismerkingar leiði innkaup almennings og fyrirtækja.

Sýning Svansins í Perlunni

Sem liður í átaki um styrkingu Svansins, stóð Umhverfisstofnun fyrir kynningu á Svansmerktum vörum á þjónustu í Perlunni í tilefni af Degi umhverfisins laugardaginn 26. apríl sl. Sýningin bar yfirskriftina Vistvænn lífsstíll og var ætlað að vekja athygli fólks á þeim fjölmörgu vistvænu vörum og þjónustu sem standa íslenskum neytendum til boða. Umhverfisstofnun fékk til liðs við sig fjöldann allan af fyrirtækjum sem framleiða, flytja inn og selja Svansmerktar vörur til að sýna gestum sýningarinnar sýnishorn af hundruðum Svansmerktra vara og þjónustu sem fáanlegar eru á Íslandi í dag. Allt frá sláttuvél og rúmi til pappírs og hreinsiefna.

Umhverfisstofnun vill nota tækifærið og þakka fyrirtækjunum fyrir einstaklega jákvæð viðbrögð og samstarfsvilja til að koma þessari sýningu á. Gaman hefur verið að komast að því hve mikið og fjölbreytt úrval er til af Svansmerktum vörum hér á landi.

Svanurinn tekur flugið

Í tilefni af Degi umhverfisins sendir Umhverfisstofnun nú skýr skilaboð um að tilvera Svansins muni enn styrkjast á Íslandi. Jafnframt hvetjum við alla til að nýta sér allt það ríkulega úrval sem stendur okkur til boða af Svansmerktum vörum á markaðnum. Vörum sem eru meðal þeirra bestu og umhverfisvænstu í sínum vöruflokki í dag. Svanurinn er tækifæri okkar neytenda til að ýta undir umhverfisvænna og heilsusamlegra samfélag, sem hefur sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Samfélag sem við getum öll verið stolt af. Svanurinn er kominn til að vera á íslandi og nú tekur hann flugið!