Stök frétt

Sólarræsting hlaut Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfisráðuneytisins, við athöfn í Perlunni á degi umhverfisins. Kuðungurinn er viðurkenning á því framlagi sem viðkomandi fyrirtæki hefur veitt til umhverfismála og öðrum fyrirtækjum hvatning til að leggja enn meira að mörkum í umhverfismálum. Það var Þórsteinn Ágústsson, framkvæmdastjóri Sólarræstingar sem tók við Kuðungnum úr hendi Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra.

Við sama tækifæri voru nemendur úr Lýsuhólsskóla og Fossvogsskóla útnefndir varðliðar umhverfisins. Þá var sýningin Vistvænn lífsstíll opnuð þar sem 25 fyrirtæki, stofnanir og félög sýna vistvænar vörur og þjónustu.

Dofri Hermannsson, formaður valnefndar, sagði við afhendinguna að það hefði verið samdóma álit allra nefndarmanna að úr hópi tilnefndra fyrirtækja væri Sólarræsting best að verðlaununum komið að þessu sinni. Sólarræsting hefði með markvissri áherslu á umhverfissjónarmið í starfi sínu og stefnumótun sett glæsilegt fordæmi sem væri öðrum fyrirtækjum til hvatningar og eftirbreytni. Sólarræsting býður fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum upp á þjónustu við reglulegar ræstingar og ýmis hreingerningarverkefni. Sólarræsting hefur unnið markvisst að því að flétta gæða- og umhverfissjónarmið inn í alla stefnumótun fyrirtækisins.

Fyrirtækið hefur undanfarin misseri unnið að því að fá Svansvottun á starfsemi sína og náði þeim áfanga í ágúst á síðasta ári og mun vera fyrsta ræstingarfyrirtækið á Íslandi til að hljóta slíka vottun. Vinna stjórnenda fyrirtækisins við að samþætta umhverfisáherslur öllu starfi fyrirtækisins hefur skilað sér í bættum rekstri og ánægðari viðskiptavinum. Einnig hefur fjárhagslegur ávinningur af umhverfisstarfinu verið ótvíræður. Nokkur atriði um rekstur Sólarræstingar voru sérstaklega dregin fram í niðurstöðu dómnefndar:

Strax við undirbúning Svansvottunar fjölgaði umhverfismerktum vörum úr 0% í 46% og nú ári síðar notar Sólarræsting einungis umhverfismerktar vörur í almennum ræstingum.

Notkun glærra plastpoka hefur dregist saman um 70% eða úr rúmum þremur tonnum í eitt tonn.

Tilraunir með nýtt svansmerkt gólfviðhaldsefni I-VAX í stað notkunar á bóni og bónleysi hefur skilað þeim árangri að efnanotkun hefur minnkað úr 25 g/fm í 1-2 g/fm.

Sex af sjö bifreiðum fyrirtækisins standast Euro IV staðalinn um útblástur nituroxíðs og svifryks frá bifreiðum.

Valnefnd Kuðungsins, umhverfisverðlauna Umhverfisráðuneytisins, skipuðu að þessu sinni þau Dofri Hermannsson fyrir hönd ráðherra, Sigurður Hafliðason fyrir hönd Alþýðusambands Íslands og Sigríður Anna Guðjónsdóttir fyrir hönd Samtaka Atvinnulífsins.

Umhverfisráðuneytið veitti Kuðunginn fyrst árið 1995, þá fyrir starf á árinu 1994. Þau fyrirtæki sem hafa hlotið viðurkenninguna hingað til eru Kjötverksmiðjan Goði 1994, Gámaþjónustan 1994, Umbúðamiðstöðin 1994, Prentsmiðja Morgunblaðsins 1995, Fiskverkun KEA í Hrísey 1996, Olíufélagið 1997, Fiskversmiðja Haraldar Böðvarssonar á Akranesi 1998, Borgarplast 1999, Íslenska Álfélagið 2000, Árvakur 2002, Hópbílar 2003, Orkuveita Reykjavíkur 2004, Línuhönnun 2005 og Bechtel 2006.

Kristín Þorkelsdóttir, grafískur hönnuður, hannaði merki fyrir Kuðunginn og það fyrirtæki sem hlýtur viðurkenninguna hefur rétt til að nota merkið í eitt ár. Á hverju ári er svo fenginn nýr listamaður til að hanna nýjan Kuðung sem Kuðungshafinn fær til eignar. Að þessu sinni var það Sigríður Ágústsdóttir sem gerði Kuðunginn.