Stök frétt

Mynd: Gottskálk Friðgeirsson

Vegna yfirlýsingar Norðuráls 23. apríl 2008 vill Umhverfisstofnun koma eftirfarandi atriðum á framfæri.

1. Útreikningar Umhverfisstofnunar á útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi eru í samræmi við reiknireglur vísindanefndar SÞ um loftslagsbreytingar (IPCC). Stofnunin beitir sömu aðferð við útreikninga á útstreymi perflúorkolefna frá öllum starfandi álverum á Íslandi. Við útreikningana eru upplýsingar frá hverri verksmiðju varðandi spennuris og álframleiðslu tvinnaðar við útstreymisstuðla frá IPCC. Þessi aðferð hefur verið notuð til útreikninga í 5 ár (frá og með árinu 2004 þegar aðferðafræðin við útreikningana var bætt).

2. Til er aðferð til að reikna útstreymi frá einstökum álverksmiðjum og byggir hún á útstreymisstuðlum sem fengnir eru með mælingum í viðkomandi verksmiðju. Til þess að hægt sé að nota þá aðferð þurfa að liggja til grundvallar yfirgripsmiklar mælingar sem ná yfir löng tímabil þannig að fullt tillit sé tekið til breytileika í rekstri. Í yfirlýsingu Norðuráls virðist vera vísað til niðurstaðna mælinga sem stóðu yfir í eina viku árið 2003. Það er mat Umhverfisstofnunar að þau gögn uppfylli ekki framangreinda grunnkröfu.

3. Samkvæmt skýrslu sem Noregur hefur sent til loftslagssamnings SÞ kemur fram að Norðmenn nota sömu aðferð og Umhverfisstofnun til að meta útstreymi perflúorkolefna frá álverum í Noregi. Norðmenn telja þá aðferð nákvæmari heldur en aðferðina sem byggir á mælingum hjá einstökum verksmiðjum þar sem útstreymisstuðlar IPCC byggi á niðurstöðum mælinga í yfir 70 álverum á síðasta áratug og óvissa stuðlanna sé því minni en óvissa mælinga í einstökum álverum (bls. 151 í framangreindri skýrslu).

4. Rétt er að geta þess að Skrifstofa Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna er með sérstakt ferli sem miðar að því að tryggja að útstreymisreikningar séu sambærilegir milli landa. Hluti af þessu ferli er að endurskoða reikninga hvers lands árlega og koma síðan með ábendingar um hvað megi betur fara. Ekki hafa verið gerðar athugasemdir við útreikninga Íslands á flúorkolefnum frá álverum í þessu ferli.