Stök frétt

Mynd: Chang Qing á Unsplash

Umhverfisráðuneytið, Úrvinnslusjóður og Sorpa boða til sýningarinnar Vistvænn lífsstíll.

Sýningin verður opin boðsgestum á Degi umhverfisins 25. apríl en opin öllum laugardaginn 26. apríl. Fyrirtæki og félagasamtök sýna þar ýmis konar umhverfisvæna vöru og þjónustu eða kynna starf sitt að umhverfismálum á annan hátt.

Umhverfisráðherra mun opna sýninguna og veita viðurkenningar í tilefni af Degi umhverfisins á sýningunni.

Markmiðið með sýningunni er að skapa vettvang þar sem almenningur fær tækifæri til þess að kynna sér vistvænar vörur og þjónustu sem í boði eru.

Með þessu er vonast til að áhugi neytenda á að skipta við vistvæn fyrirtæki og að láta sig umhverfissjónarmið varða í innkaupum og daglegu lífi aukist.

Með því að huga að umhverfissjónarmiðum í innkaupum og neyslu hvetja neytendur fyrirtæki til að gefa umhverfismálum meiri gaum og leggja lítið lóð á vogarskál betra umhverfis.

Innflytjendur og söluaðilar Svansmerktrar vöru og þjónustu sýna vörur sínar á sýningunni Vistvænn lífsstíll í Perlunni, 25. og 26. apríl nk.

Norræna umhverfismerkið Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Svanurinn hefur skapað sér ótvíræðan sess sem mikilvægasta og áreiðanlegasta umhverfismerkið á Norðurlöndunum, með mikla útbreiðslu og traust meðal neytenda.

Viðurkennd umhverfismerki eins og Svanurinn auðvelda neytendum að velja umhverfisvæna vöru og þjónustu. Þannig er stuðlað að minni umhverfisáhrifum með því að efla hönnun, framleiðslu, markaðssetningu og notkun á þjónustu og vörum sem uppfylla ströngustu umhverfis- og gæðaskilyrði. Það er markmið Umhverfisstofnunar (UST), sem fer með daglegan rekstur Svansins á Íslandi, að umhverfismerkingar muni í stórauknum mæli leiða innkaup almennings og fyrirtækja. Þannig verði unnið að því að hlutfall umhverfismerktra vara á markaði aukist stórlega og áhugi almennings og fyrirtækja á umhverfismerktri vöru verði efldur.

Efling Svansins á Íslandi er þar lykilatriði. Sem liður í þessu átaki, mun UST kynna Svaninn á sérstökum bás á sýningu á Degi umhverfisins 25. og 26. apríl nk. Sýningin ber yfirskriftina Vistvænn lífsstíll og er ætlað að vekja athygli fólks á þeim fjölmörgu vistvænu vörum og þjónustu sem nú þegar er hægt að nálgast til að viðhafa vistvænan lífsstíl. Á sýningunni er ætlun UST að vekja athygli á Svaninum og er stefnt að því að sýna dæmi um sem flestar vörur og þjónustu sem fáanlegar eru á Íslandi með Svansmerkinu.