Stök frétt

Mynd: Yakov Leonov á Unsplash
Námskeið um notkun varnarefna í landbúnaði og garðyrkju verður haldið á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands dagana 13. og 14. mars nk. í húsnæði LBHÍ (áður Rannsóknastofu landbúnaðarins) á Keldnaholti í Reykjavík.

Námskeiðið er einkum ætlað þeim sem vilja öðlast réttindi til að kaupa og nota efni í X og A hættuflokkum og þeim sem ætla sér að stunda garðaúðun í atvinnuskyni. Farið verður yfir helstu skaðvalda sem við er að eiga í ræktuninni.

Hvaða úrræði eru möguleg til að verjast þeim óværum sem við er að eiga. Sagt verður almennt frá samsetningu varnarefna og verkun þeirra og hvernig megi nota þau á sem tryggastan hátt. Kynnt verða lög og reglugerðir er varða notkun á efnum í þessum hættuflokkum. Farið í það hvers konar tæki eru notuð til úðunar, dreifingar og skömmtunar á varnarefnum, ásamt útskýringum á virkni og meðferð tækjanna.

Upplýsingar um skráningu, verð o.fl. er að finna á heimasíðu LBHÍ.