Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Tíunda landsráðstefna um Staðardagskrá 21 verður haldin að Hótel Örk í Hveragerði dagana 8. og 9. febrúar næstkomandi. Meginþema ráðstefnunnar verða tengsl umhverfis og heilsu, en einnig er ætlunin að leita svara við spurningunni ,,Hvernig getur sjálfbær þróun skapað ný störf".

Stýrihópur Staðardagskrár vinnur að undirbúningi ráðstefnunnar í samvinnu við starfsfólk landsskrifstofu Staðardagskrár 21. Stýrihópurinn er skipaður tveimur fulltrúum umhverfisráðuneytis og tveimur fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga.Skrá þarf þátttöku í ráðstefnunni í síðasta lagi föstudgainn 25. janúar 2008. Skráning berist á netfangið ragnhildur@environice.is eða í síma 437 2311. Hægt er að skoða dagskrá ráðstefnunnar á heimasíðu Staðardagskrár 21.

Tveir samningar milli ríkis og sveitarfélaga annars vegar og milli umhverfisráðuneytis og iðnaðarráðuneytis hins vegar hafa lagt grunninn að starfi Staðardagskrár 21 hér á landi. Árið 1998 var undirritaður samningur milli umhverfisráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um samstarf til að aðstoða íslensk sveitarfélög við vinnu að Staðardagskrá 21. Árið 2003 unirrituðu umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra samning um samstarf við innleiðingu Staðardagskrár 21 og sjálfbærrar byggðaþróunar í fámennum sveitarfélögum.

Staðardagskrá 21 (Local Agenda 21) er áætlun sem öllum sveitarstjórnum heimsins er ætlað að vinna í samræmi við ályktun Heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Río de Janeiró 1992. Nánar tiltekið er hér um að ræða áætlun um þau verk sem vinna þarf í hverju samfélagi fyrir sig til að nálgast markmiðið um sjálfbæra þróun á 21. öldinni, þ.e.a.s. þróun sem gerir okkur kleift að mæta þörfum okkar, án þess að stefna í voða möguleikum komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum.

Staðardagskrá 21 er með öðrum orðum heildaráætlun um þróun hvers samfélags um sig fram á 21. öldina. Áætlunin snýst ekki eingöngu um umhverfismál í hefðbundnum skilningi, heldur er henni ætlað að taka jafnframt tillit til efnahagslegra og félagslegra þátta. Í raun og veru er Staðardagskrá 21 fyrst og fremst velferðaráætlun hvers sveitarfélags fyrir sig.