Stök frétt

Á jólum er jafnan stór liður í hátíðahaldinu að gera sér dagamun í miklum og góðum mat. En það er ekki bara mannfólkið sem kann vel að meta jólamatinn, því örverur þrífast vel ef hitun eða kælingu er ábótavant og geta þá fjölgað sér hratt. Til þess að eiga ekki á hættu að fá matareitrun þarf að sjá við þeim og hafa nokkur lykilatriði á hreinu.

Hreinlæti - til þess að forðast að örverur komist í matvælin

  • Hreint umhverfi
    Notum hrein ílát og áhöld, höfum borðin hrein og munum að skipta oft um borðtusku.
  • Hreinar hendur
    Þvoum hendur áður en farið er að meðhöndla matvæli og eftir að hafa snert hrátt kjöt.
  • Krossmengun
    Gætum þess að aldrei komist blóðvökvi úr hráu kjöti í tilbúin mat s.s. úr kalkún í salatið.

Rétt hitastig - til þess að hindra fjölgun örvera

  • Kælum
    Geymum kælivöru við 0-4°C því þá hafa örverurnar hægt um sig. Full ástæða er til að fylgjast vel með hitastiginu í ísskápnum þegar mikið er sett inn í hann af volgum mat og hann því vel fullur. Hefurðu mælt hitastigið í ísskápnum þínum nýlega?
  • Hitum - eldum matvæli nægilega.
    Fuglakjöt, unna kjötvöru og fisk þarf að gegnhita. Matur er gegnsteiktur þegar hitastigið hefur farið í 75°C og flestar örverur dauðar. Við það hitastig er kjötsafinn tær og enginn blóðlitur á að sjást.
  • Hitum - höldum mat heitum við amk 60°C
    Á hlaðborðum eða þegar matur bíður lengi (meira en 2 klst) þarf að halda matnum vel heitum því á hitabilinu ca 10-50°C fjölga örverur sér mjög hratt og hætta getur skapast. Enga hálfvelgju takk!
  • Kælum - Setjum matarafganga fljótt í ísskápinn.
    Samspil hitastigs og tíma skiptir miklu um fjölgun örvera. Aðalatriðið er að hafa mat ekki lengi volgan (10-50°C). Oft er miðað við að hitastigið eigi að fara úr 65°C niður í 10°C á minna en þremur klukkustundum. Athugið þetta t.d. við suðu á hangikjöti.
    Erfitt er að kæla stóra skammta af mat t.d. pottrétti. Það getur tekið langan tíma að kæla niður stóran pott fullan af mat, en þá er hægt að setja hann í minni ílát eða kæla í ísvatni.