Stök frétt

Sænsku neytendasamtökin leggja til að nýir bílar verði merktir á sama hátt og ný heimilistæki miðað við hversu orkusparandi þeir eru og hversu mikið þeir menga. Heimilistæki eins og ísskápar og þvottavélar eru merkt með tilliti til orkunotkunar með mjög skýrum hætti þar sem notkunin er greind í nokkra flokka. Á sama hátt væri hægt að merkja nýja bíla til glöggvunar fyrir kaupendur sem vilja vita hversu mikið tiltekinn bíll mengar, hversu mikið koldíoxíð hann losar og s.frv. Fram hefur komið í könnunum nýverið að allt að helmingur fólks á Norðurlöndunum og Vestur-Evrópu er tilbúinn til að greiða meira fyrir vörur og þjónustu ef tryggt er að það dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda og hægir á hlýnun jarðar.

Svipuð flokkun bifreiða hefur verið stunduð í Danmörku í nokkur ár. Þar er hægt að fara á vefinn www.hvorlangtpaaliteren.dk og finna þar bæði notaðar og nýjar bifreiðar til að finna út hversu umhverfisvænar þær eru og sjá í hvaða orkuflokki þær lenda.