Stök frétt

Fimmtudagskvöldið 12. júlí var genginn fyrsti áfanginn í strandgöngu þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Gengið var frá Krossavík að Þórðarkletti við útfall Gufuskálamóðunnar sem er um 6-7 km leið.

Leiðsögumenn í ferðinni voru þau Sæmundur Kristjánsson frá Rifi og Erla Björk Örnólfsdóttir sjávarlíffræðingur hjá sjávarrannsóknasetrinu Vör við Breiðafjörð. Þau blönduðu skemmtilega saman fróðleik um fjörulífið og sögu þeirra staða sem gengið var um og kynntust gestir, kröbbum, klettadoppum og sæfíflum svo eitthvað sé nefnt og bauðst fólki að smakka á ýmsum lostætum þangtegundum eins og beltisþara og sölvum.

Tæplega 30 manns og hundurinn Muggur tóku þátt í göngunni og var hún ákaflega vel heppnuð og fróðleg enda þau Sæmundur og Erla Björk bæði frábærir leiðsögumenn á sínu sviði. Stefnt er að því að ganga alla strönd þjóðgarðsins í 6 áföngum í sumar og næsta sumar.

Næsti áfangi verður genginn fimmtudagskvöldið 26. júlí frá Hólahólum að Djúpalónssandi og verður leiðsögnin sem er í höndum Sæmundar með áherslu á náttúru og vermennsku. Ekki er ólíklegt að Erla Björk sláist einnig í för í þeirri göngu. Hún hefst kl. 19 og verður séð um að ferja fólk til baka að Hólahólum frá Djúpalónssandi að göngu lokinni.