Stök frétt

Árið 1907 hélt leiðangur þýskra vísindamanna inn í Öskju til rannsókna. Leiðangursstjóri var Walther von Knebel jarðfræðingur en auk hans voru þeir Hans Spethmann jarðfræðinemi og Max Rudloff málari. Þann 10. júlí 1907 munu þeir Knebel og Rudloff hafa drukknað í Öskjuvatni. Nú eru liðin um 100 ár frá því að þessara manna var saknað og vegna þessa verður boðið uppá gönguferð, undir leiðsögn landvarða, að Öskjuvatni. Verður blómum fleytt á vatnið í minningu Þjóðverjanna.

Lagt verður af stað frá bílaplaninu í Vikraborgum (Öskjuplan) þann 10 júlí, klukkan 14:00. Í framhaldi af gönguferðinni, eða um kl. 16:30-18:00, verður gestum og gangandi boðið í lummukaffi að hætti landvarða við Drekagil. Þá munu landverðir lesa upp úr bók Inu Von Grumbkow, sem var heitkona Von Knebel, og fræða gesti og gangandi um þá atburði sem áttu sér stað við Öskjuvatn. Göngutími er áætlaður um 1.5 klst og eru allir velkomnir.

Bergþóra Kristjánsdóttir
Yfirlandvörður í Herðubreiðarlindum og Öskju