Stök frétt

Í nýrri Norrænni skýrslu kemur fram að svokölluð PFS efnasambönd finnast í umhverfinu á öllum Norðurlöndunum, en þessi efni eru þrávirk og skaðleg þeim lífverum sem efnin safnast upp í miklu magni.

Haustið 2003 fóru fram sýnatökur á öllum Norðurlöndum og voru sýnin voru send til rannsóknar í Noregi og Svíþjóð. Rannsóknin eru hluti af samnorrænu verkefni, styrktu er Norrænu ráðherranefndinni, sem felst í því að samræma á Norðurlöndunum grunnúttektir á dreifingu ýmissa efnasambanda sem eru á alþjóðlegum listum yfir þrávirk og hættuleg efni.

PFS (perfluorinated substances) er samnefni yfir hóp efna sem berast úr neysluvörum í umhverfið. Helstu vörur sem sem innihalda efnin eru eldvarnarefni, gólfbón, ýmis textíl efni og rafmagnsvörur. Miðað við notkunarsvið ofangreinds varnings er vitað að PFS efni berist út í umhverfið með skólpi, útblæstri og með úrgangi.

Sýnin sem tekin voru á Íslandi voru tekin í skólphreinsistöðvum í Reykjavík, í fiski, seti og vatnssýnum úr sjónum rétt utan við Gufunes, auk þess sem sýni úr hrefnulifur voru einnig send út til rannsóknar.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru merkilegar þar sem PFS efni fundust í nær öllum sýnum bæði á Íslandi og einnig á hinum Norðurlöndunum. Styrkur efnanna var einna mestur í sjávarspendýrum sem veidd voru við Danmörk og Færeyjar, en í þeim sýnum er talið að styrkur tiltekinna PFS efna geti nálgast hættumörk. Í hrefnu sem veiddist við Íslandsmið var styrkurinn þó áberandi lægri en í grindhvölum við Færeyjar, enda eru grindhvalir ofar í fæðukeðjunni en hrefnur.

Árið 2002 var gerð álíka rannsókn á svokölluðum Musk-efnasamböndum, sem eru þrávirkar Musk-lyktarefnaafleiður sem finnast í allmörgum hreingerningar- og snyrtivörum. Niðurstöður þeirrar rannsóknar voru ekki eins afgerandi, þar sem efnin fundust aðeins í hluta af sýnum og þá í magni sem áætlað er að sé langt undir hættumörkum.

Verkefninu verður haldið áfram á þessu ári, þegar sýni verða tekin til skoðunar á síloxan efnasamböndum, en þau finnast einnig í neytendavörum og eru þrávirk og hættuleg lífverum er þau berast út í umhverfið.

PFS skýrslan er 107 síður og má sækja í PDF formi.