Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Föstudaginn 18. júní 2004 veitti Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra Farfuglaheimilinu í Reykjavík norræna umhverfismerkið Svaninn. Þeir einir fá að nota Svansmerkið sem uppfylla strangar kröfur um gæði og takmörkun umhverfisáhrifa.

Farfuglaheimilið í Reykjavík er eitt af fyrstu farfuglaheimilunum sem hlýtur Svaninn en fjölmörg hótel á norðurlöndunum eru svansmerkt, þar á meðal eitt hér á landi, Hótel Eldhestar í Hveragerði.

Á Farfuglaheimilinu í Reykjavík hefur á undanförnum árum verið unnið þýðingarmikið þróunarstarf á sviði gæða- og umhverfismála. Starfið byggir á sterkum grunni Bandalags íslenskra farfugla (BÍF) sem alla tíð hefur lagt áherslu á umhverfis- og menningarmál í sinni stefnu og starfi, má hér nefna að Farfuglaheimilið í Reykjavík fékk Umhverfisviðurkenningu Reykjavíkurborgar árið 2002 og BÍF hlaut Umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs árið 2003.

Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra afhenti Sigríði Ólafsdóttur rekstrarstjóra Farfuglaheimilisins þessa viðurkenningu við hátíðlega athöfn. Lúðrasveitin Svanur lék nokkur lög.

Jafnframt undirrituðu forsvarsmenn Farfuglaheimilisins og Orkuveituveitu Reykjavíkur samning um samstarf á sviði menningar og umhverfismála í sumar.

Athöfnin fór fram á Farfuglaheimilinu að Sundlaugavegi 34.