Stök frétt

Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra tilkynnti á fundi í þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum að 6 milljónir yrðu settar til uppbyggingar á Gljúfrastofu, gestastofu og upplýsingamiðstöð þjóðgarðsins og nágrennis. Féð kemur frá umhverfisráðherra, samgönguráðherra og iðnaðarráðherra sem allir leggja fram 2 milljónir hver. Fyrir höfðu safnast 2,5 milljónir kr frá samgönguráðuneyti, Umhverfisstofnun, Kísilgúrsjóði og sveitarfélögunum í kringum þjóðgarðinn.

Það hefur lengi verið draumur manna að koma upp gestastofu í Jökulsárgljúfrum þar sem innlendir og erlendir ferðamenn geta notið fræðslu um þjóðgarðinn. Í vetur hefur verið unnið að rafrænu fræðsluefni um þjóðgarðinn þar sem texta, myndum, kortum og lesmáli er blandað saman. Til stendur að setja þetta fræðsluefni á vefsjá sem staðsett verður í gestastofunni þegar hún verður opnuð. Einnig verður þar í boði fjölbreytilegur fróðleikur sem höfðar bæði til fullorðinna og barna

Með þessu fjárframlagi hefur náðst mikilvægur áfangi við verkefnið sem um leið sýnir þann góða stuðning sem það hefur fengið víða að.