Stök frétt

Mynd: kindfolk á Unsplash

Umhverfisstofnun vill minna á að frá og með 30. júní næstkomandi verður notkun timburs með viðarvörn sem inniheldur ólífræn arsensambönd óheimil almenningi.

Hér er um að ræða viðarvörn sem þrýst er inn í viðinn og samanstendur að megninu til af ólífrænum kopar, króm og arsen efnasamböndum og þekkist undir skammstöfuninni CCA. Timbur með þessari viðarvörn þekkist á grænleitu yfirbragði þess en bannið nær ekki yfir allt grænt timbur. Timbur með slíkri viðarvörn hefur verið á markaði um árabil en viðarvarnarefnið sjálft er ekki fáanlegt.

Óheimilt verður að nota nýtt timbur með slíkri viðarvörn í sólpalla og gerði á heimilum eða á þann hátt að það sé hluti af daglegu umhverfi fólks og jafnframt er óheimilt að markaðssetja það sem slíkt. Þetta er ekki síst gert til þess að koma í veg fyrir að börn komist í snertingu við timbur með hættulegri viðarvörn í umhverfi sínu, til dæmis á leiksvæðum.

Seljendum er ráðlagt að fjarlægja allt slíkt timbur af almennum markaði sem fyrst.

Af þessu tilefni er rétt að nokkur atriði komi fram.

CCA varið timbur er grænleitt en ekki er allt grænleitt timbur með CCA viðarvörn.

Viður með þessari viðarvörn er ekki talinn hættulegur við venjulega snertingu eins og ef gengið er á berum fótum yfir pall með CCA viðarvörn. Það er hins vegar rétt að þvo sér eftir snertingu við CCA varinn við og koma í veg fyrir að matvæli komist í snertingu við viðinn.

Ein af ástæðum fyrir vinsældum þessarar viðarvarnar í gegnum árin er sú hve virk og endingargóð hún er. Það er ekki síst vegna þess hve vel viðarvarnarefnin haldast í viðnum.

Timburstólpar og annað timbur í snertingu við jörðu getur mengað jarðveginn í kring en að öðru leyti er ekki við því að búast að nánasta umhverfi mengist.

Það má bera nýja viðarvörn yfir timbur með CCA viðarvörn til þess að útiloka að arsensambönd berist út í umhverfið og hindra að fólk komist í snertingu við þessi efni. Þó sala og notkun á nýju CCA vörðu timbri hafi verið bönnuð til heimilisnota er samt sem áður talið nokkurn veginn óhætt að nota timbrið í nánasta umhverfi fólks. Það er því ekki talin nauðsyn að fjarlægja notað timbur með CCA viðarvörn.