Stök frétt

Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson, 14. maí 2001

Umhverfisfræðsluráð hefur ákveðið að standa fyrir sýningu í tilefni af Degi umhverfisins 25. apríl, helgina 24.-25. apríl, þar sem fyrirtækjum og fleiri aðilum stendur til boða að sýna ýmis konar umhverfisvæna vöru og þjónustu, eða kynna starf sitt að umhverfismálum á annan hátt. Ráðið hefur þegar tryggt sér stuðning nokkurra fyrirtækja sem styrktaraðila að sýningunni en þau eru Alcan á Íslandi, Árvakur hf. útgáfufélag Morgunblaðsins, Hópbílar hf , Orkuveita Reykjavíkur, Prentsmiðjan hjá Guðjón Ó hf , SORPA bs og umhverfisráðuneytið. Umhverfisráðherra mun opna sýninguna og veita viðurkenningar í tilefni af Degi umhverfisins á sýningunni.

Markmiðið með sýningunni er að skapa vettvang þar sem almenningur fær tækifæri til þess að kynna sér vörur og þjónustu þar sem hugað er sérstaklega að umhverfismálum. Með þessu vonast Umhverfisfræðsluráð til þess að efla áhuga neytenda á að skipta við vistvæn fyrirtæki og að láta sig umhverfissjónarmið varða í innkaupum og daglegu lífi. Góð þátttaka atvinnulífsins er grunnforsenda fyrir því að halda sýningu af þessu tagi og hún verður ekki haldin nema tilskilinn fjöldi fyrirtækja taki þátt þannig endurspeglar sýningin það umhverfisstarf sem fram fer í fyrirtækjum á Íslandi um þessar mundir. Auglýst var eftir sýnendum í Morgunblaðinu mánudaginn 8. mars sl. Sýningin verður haldin í nafni Umhverfisfræðsluráðs og er ekki ætlað að skila hagnaði.


Hagnýtar upplýsingar til sýnenda:


Hvað?
Sýning fyrirtækja og fleiri aðila sem bjóða upp á umhverfisvæna vöru og þjónustu, eða hafa innleitt umhverfissjónarmið í rekstur sinn.

Hvers vegna?
Til að kynna umhverfisvæna vöru og þjónustu fyrir almenningi og fá fólk til að hugsa í auknum mæli um tengsl umhverfismála við atvinnulíf og neyslu og hvaða áhrif hefur einstaklingurinn á umhverfið með daglegu líf sínu?

Hvenær?
Helgina 24. - 25. apríl. Dagur umhverfisins verður haldinn hátíðlegur í sjötta sinn þann 25. apríl n.k. Opnunartími Smáralindar er frá 11 - 18 á laugardögum og 13 - 18 á sunnudögum og verður sýningin opin á sama tíma.

Hverjir sýna?
Öll fyrirtæki sem hafa áhuga á að sýna geta tekið þátt, svo lengi sem starfsemi þeirra vörur eða þjónusta tengist á einhvern hátt þema sýningarinnar og húsrúm leyfir. Þar á meðal eru fyrirtæki sem selja umhverfisvæna vöru og þjónustu, fyrirtæki sem hafa sett sér umhverfisstefnu og/eða lagað rekstur sinn að umhverfiskröfum og fyrirtæki sem selja vörur sem hvetja til umhverfisvænni lífsstíls. Einnig er stofnunum og félögum boðið að kynna starf sitt að umhverfismálum.

Hverjir koma?
Vonandi sem flestir! Um venjulega helgi koma 20 - 30.000 manns í Smáralindina. Engin aðgangseyrir verður á sýninguna og reynt verður að efna til viðburða sem gætu hvatt fólk til að mæta. Umhverfisfræðsluráð mun kynna sýninguna eftir fremsta megni með auglýsingum og uppákomum. Afhending viðurkenninga umhverfisráðherra í tilefni af Degi umhverfisins vekur ávallt athygli fjölmiðla en hún fer fram á sýningunni í ár.

Hvað kostar?
Kostnaður við leigu er 10.000 kr. á fermetra. Stærð básanna verður 2 til 8 fermetrar. Básarnir verða með lýsingu og merktir sýnanda en tómir að öðru leyti. Sýnendur sjá um að setja upp efni í básnum og manna þá.

Hverjir standa fyrir sýningunni?
Umhverfisfræðsluráð er samráðsvettvangur opinberra aðila og hagsmuna- og félagasamtaka um umhverfisfræðslu og er skipað af umhverfisráðherra. Ráðið heldur úti vefsíðunni umvefur.is og hefur m.a. staðið fyrir fjórum vel sóttum ráðstefnum um umhverfisfræðslu. Sýningin er hugsuð sem liður í starfi ráðsins til þess að fræða almenning um umhverfismál.

Hvernig tek ég þátt?
Með því að fylla út umsókn um básaleigu. Samið hefur verið við Gestamótttökuna ehf, um að um að innheimta leigu, að raða sýnendum niður á bása og verður tengiliður við sýnendur varðandi hagnýt atriði. (gestamottakan@yourhost.is, sími 551 1730).

Hvernig verður sýningin auglýst?
Umhverfisfræðsluráð mun auglýsa sýninguna með vefauglýsingum og auglýsingum í fjölmiðlum. Magn auglýsinga verður í hlutfalli við fjölda sýnenda. Sýnendur eru hvattir til þess að minna á þátttöku sína með eigin auglýsingum.

Styrktaraðilar:
Til þess að tryggja fjárhagslegan grundvöll sýningarinnar sem er ekki ætlað að skila hagnaði var leitað eftir styrktaraðilum. Samið hefur verið við þessi fyrirtæki um að vera styrktaraðilar sýningarinnar: Alcan á Íslandi, Árvakur hf. útgáfufélag Morgunblaðsins, Hópbílar hf , Orkuveita Reykjavíkur, Prentsmiðjan hjá Guðjón Ó hf , SORPA bs og umhverfisráðuneytið.