Stök frétt

Mynd: Charl Folscher á Unsplash

Evrópuþingið samþykkti 9. mars sl. frumvarp um eftirlit með matvælum og fóðri. Evrópuráðið og framkvæmdastjórnin höfðu þegar samþykkt óformlega þær breytingar sem þingið gerði, þannig að með samþykkt þingsins er leiðin greið og verður reglugerðin birt á næstunni í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og mun hún taka gildi frá 1. janúar 2006.

Frá 1. janúar 2006 falla úr gildi núgildandi tilskipanir um málefnið, sem eru:

  • Tilskipun ráðsins nr. 70/373 um að taka upp í bandalaginu aðferðir við sýnatöku og greiningu vegna opinbers eftirlits með fóðri, með síðari breytingum.
  • Tilskipun ráðsins nr. 95/53 um setningu meginreglna um skipulag opinberra skoðana á sviði dýrafæðu, með síðari breytingum.
  • Tilskipanir ráðsins nr. 89/397 og 93/99 um meginreglur við opinbert matvælaeftirlit, með síðari breytingum.

Hér verður til samræmdur ESB rammi, sem einfaldar og styrkir eftirlitskerfið sem nú er við líði. Með aðild Íslands að EES samningum leiðir það að sjálfu sér að innleiða verður ákvæði reglugerðarinnar í íslenska matvæla- og fóðurlöggjöf. Breytinga er því að vænta á reglugerð nr. 340/2001 um eftirlit með fóðri og reglugerð nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla. Hugsanlega verða víðtækari breytingar s.s. á lögum sem þessar reglugerðir hafa stoð í.

Enn er unnið að endurskoðun s.k. hollustuhátta-pakka (hygiene-package), en hann tekur til atriða er varða opinbert eftirlit með matvælum af dýrauppruna og hollustuhátta við framleiðslu og dreifingu matvæla.