Stök frétt

Mynd: Jónas Erlendsson

Í umfjöllun fjölmiðla í gær, fimmtudag, kom fram að umhverfisráðherra hefur veitt heimild til þess að losa loðnufarm Baldvins Þorsteinssonar í sjóinn í því skyni að létta skipið.

Í framhaldi af þessu telur Umhverfisstofnun rétt að skýra aðstæður, rök og heimildir vegna þessa. Meginreglur og viðmið um aðgerðir við þær aðstæður sem hér ríkja byggja á alþjóðlegum samningum (einkum MARPOL 73/78 og OSPAR) og lögum nr. 32/1986 um varnir gegn mengun sjávar en í lögunum eru tekin upp efnisatriði samninganna.

Meginregla í umgengni við hafið er að öll losun mengandi efna og allt varp í hafið er óheimilt nema í þeim tilvikum sem til þess eru veittar sérstakar heimildir. Undanþegnar þessum reglum eru aðgerðir sem nauðsynlegar eru til þess að vernda mannslíf eða tryggja öryggi skipa, loftfara, palla og annarra mannvirkja á sjó eða landi, svo og mengun sökum óviðráðanlegra atvika, veðurofsa eða annarra náttúruhamfara.

Í lögum um varnir gegn mengun sjávar er heimild fyrir Umhverfisstofnun til að veita sértilgreind leyfi fyrir losun á fiski og fiskúrgangi í hafið og verður einungis veitt fyrir hvert tilfelli fyrir sig. Við veitingu leyfis verður stofnunin að taka mið af eðli þeirra efna eða hluta sem áætlað er að losa eða varpa í hafið, magni þeirra og aðstöðu á losunarstað.

Við mat á afleiðingum þess að losa loðnufarm Baldvins Þorsteinssonar í hafið hafði Umhverfisstofnun í huga að skipið er statt á sandfjöru þar sem efnaskipti og rotnun ganga hratt fyrir sig. Ekki er á svæðinu viðkvæmt lífríki og einnig hefur verið haft í huga að nú líður að hrygningatíma loðnu og að upp úr því deyr hún og berst í sumum árum að ströndu í miklu magni. Stofnunin hefur einnig tekið tillit til þess að nú er þrálát og sterk SA átt sem getur leitt af sér að hluti farmsins fjúki upp á land.

Það er hins vegar ljóst að hvernig sem fer mun ekki vera gerlegt að dæla farminum yfir í bíla á landi, til þess eru aðstæður bæði á landi og í sjó of erfiðar. Einnig er ljóst að ef ekki tekst að ná skipinu á flot mun slíkt leiða af sér margs konar umhverfisáhrif, mengun, umstang og landskemmdir. Því er til mikils fórnandi að ná skipinu á flot á ný.

Að teknu tilliti til ofanritaðs taldi Umhverfisstofnun rétt að veitt yrði umbeðin heimild og lagði svo til í bréfi til Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra.

Frekari aðgerðir og tilhögun þeirra er til skoðunar hjá stofnuninni og ráðuneytinu.


Orðskýringar

Losun: Þegar vísvitandi eða af stórfelldu gáleysi er hleypt í sjóinn fljótandi eða föstum efnum sem tengjast eðlilegri starfsemi. Eftirfarandi telst ekki losun:
             a.      að koma fyrir efnum eða hlutum í hafið í öðrum lögmætum tilgangi en að farga þeim,
                b.      þegar úrgangsefni eða önnur efni, sem beinlínis stafa frá rannsóknum eða nýtingu jarðefna í eða á hafsbotni, berast í hafið,
                c.      að kasta í hafið óunnum fiski og fiskúrgangi vegna veiða og vinnslu.

Varp: Þegar efnum eða hlutum er vísvitandi eða af gáleysi fleygt í hafið frá skipum, loftförum, pöllum eða öðrum mannvirkjum, þ.m.t. þegar skipum, loftförum, pöllum eða öðrum mannvirkjum er sökkt í hafið, þ.e. allt sem ekki er losun. Eftirfarandi telst ekki varp:
                a.      að koma fyrir efnum eða hlutum í hafinu í öðrum lögmætum tilgangi en að farga þeim,
                b.      þegar úrgangsefni eða önnur efni, sem beinlínis stafa frá rannsóknum eða nýtingu jarðefna í eða á hafsbotni, berast í hafið,
                c.      að kasta óunnum fiski og fiskúrgangi og öðrum sjávarlífverum vegna veiða og vinnslu í hafið.