Stök frétt

Patrick McKeever, jarðfræðingur frá Írlandi, kynnti á dögunum European Geoparks Network (Net evrópskra jarðfræðiminja svæða) á fundi hjá Umhverfisstofnun. Í fyrirlestri hans kom fram að markmið með stofnun Geoparks Network er fyrst og fremst að kynna jarðfræðiminjar og nýta þær á sjálfbæran hátt m.a. með því að laða að ferðamenn. Það er t.d. gert með því að gera sérstakar jarðfræði gönguleiðir og með uppbyggingu fræðslusetra. European Geoparks Network eru sjálfstæð samtök sem gert hafa samning við UNESCO sem sér um gæðaeftirlit. Sveitarfélög víðsvegar um Evrópu hafa óskað eftir því að koma á fót Geopark svæði með það fyrir augum að efla atvinnu á svæðum sem liggja að þekktum jarðfræðiminjum. Ýmsar stofnanir viðkomandi landa sem tengjast jarðfræði og verndun jarðfræðiminja koma að stofnun European Geoparks Network og aðstoða við að koma á fót Geopark svæðum. Stofnun svæða hefur m.a. verið fjármögnuð með styrkjum úr sameiginlegum sjóðum Evrópusambandsins. Gera má ráð fyrir að íslensk sveitarfélög geti fengið styrki úr þessum sjóðum ef þau taka þátt í European Geoparks Network.

Slóð:

http://www.europeangeoparks.org