Stök frétt

Gestastofa Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls verður opnuð næsta vor á Hellnum. Hún verður í húsnæði Menningarmiðstöðvarinnar sem nú er verið að reisa og Sturla Böðvarsson samgönguráðherra vígði laugardaginn 25. október sl.

Gestastofur eru fræðslumiðstöðvar þar sem hægt er að afla sér upplýsinga og fróðleiks um viðkomandi svæði og sérstöðu þess. Sérstaða Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls felst einkum í nálægð við sjóinn, sögu útgerðar og Jöklinum sjálfum. Ætlunin er að í gestastofunni verði lögð áhersla á þá þætti. Húsnæðið gestastofunnar er 150m2 að stærð.

Í Menningarmiðstöðinni verður einnig upplýsingamiðstöð fyrir ferðafólk, fjölnotasalur fyrir kvikmyndasýningar og fyrirlestra, veitingasalur og fleira sem tengist ferðaþjónustu. Menningarmiðstöðin er fyrsti áfangi í fyrirhugaðri uppbyggingu á Hellnum þar sem m.a. er gert ráð fyrir að rísi sögusafn, eldfjallasafn, Jules Verne-stofa og loks ferðamannaþorp með margvíslegri starfsemi.

Við vígslu Menningarmiðstöðvarinnar var opnuð ljósmyndasýningin Undir Jökli. Á sýningunni eru ljósmyndir sem teknar voru á árunum frá 1938 og fram yfir 1950. Sýna þær bæði umhverfið og fólk sem bjó undir Jökli og eru þær afar skemmtilegar og fræðandi. Ekki hefur verið ákveðið á hvaða tímum sýningin verður opin.