Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Ríkislögreglustjóri og Umhverfisstofnun hafa undirritað samning um að Umhverfisstofnun hafi umsjón með framkvæmd skotvopnanámskeiða á öllu landinu frá og með 1. janúar 2004. Veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar hefur fram til þessa haldið námskeið fyrir umsækjendur um veiðikort. Mikil hagræðing felst í að sameina skipulag og framkvæmd beggja námskeiðana í ljósi þess að flestir sem sækja um skotvopnaleyfi sækja einnig um veiðikort. Leyfisveitingar til umsækjenda um skotvopn verða áfram í höndum lögreglustjóranna en framkvæmd prófa og námskeiðahald verður í höndum Umhverfisstofnunar.

Samningurinn felur í sér að Umhverfisstofnun annist endurnýjun kennsluefnis með aukinni áherslu á framsetningu á vefnum sem og í prentuðu máli. Ennfremur eru meginmarkmið samningsins að samræma námskeiðahald og próf á landinu. Samningur þessi er gerður með heimild í 27. gr. reglugerðar um skotvopn, skotfæri o.fl., nr. 787/1998, þar sem fjallað um námskeið og próf í meðferð skotvopna. Samkvæmt ákvæði þessarar greinar er ríkislögreglustjóra heimilt að fela öðrum framkvæmd þessara námskeiða.