Stök frétt

Niðurstaða Umhverfisstofnunar er að fyrirhugaðar framkvæmdir Landsvirkjunar við Þjórsárver, eins og þær hafa verið kynntar stofnuninni, hafi ekki langtímaáhrif inn í friðlandið í Þjórsárverum og skapi því ekki hættu á að friðlandinu verði spillt. Byggir niðurstaða stofnunarinnar á neðangreindum forsendum:

Lón við Norðlingaöldu

  • Að langvarandi uppsöfnun aurs eigi sér ekki stað á sléttlendinu fyrir neðan friðlandið. Þetta þýðir að lónshæð að sumarlagi, þegar aur er hvað mestur í ánni, verður að vera við eða fyrir neðan 566 m y.s. að jafnaði svo aurskolun verði sem best. Sumarvatn Þjórsár telst að öllu jöfnu vera árrennsli hennar á tímabilinu frá apríl til október ár hvert, sem nánar útfærist í rekstraráætlun í samráði við Umhverfisstofnun,
  • að mannvirki valdi ekki hækkun á vatnsborði við friðlandsmörkin í “100 ára flóði” umfram þá hækkun sem á sér stað við náttúrlegar aðstæður,
  • að ítarleg áætlun liggi fyrir um veitutillögunina, þ.m.t. rekstraráætlun fyrir lónið þar sem fram koma tímasetningar á sumarstöðu og vetrarstöðu lónsins, vöktunaráætlun sem tekur mið af nákvæmum líkanreikningum um aurburð í lónsstæðinu og áætlun um hvernig megi bregðast við ef rekstur lónsins sýnir að áhrif inn í friðlandið verða önnur og meiri en útreikningar hafa sýnt.

Setlón austan við friðlands

  • Að sakir óvissu varðandi rennsli í kvíslunum sé óvarlegt að gera ráð fyrir minna en að a.m.k. 3 m3/s vatns verði veitt niður eftir farvegi Þjórsárverakvísla og að settar verði upp viðeigandi áætlanir um viðbótar rannsóknir og eftirlit,
  • að sýni vöktun að grunnvatnsstaða lækkar í verunum og landið þornar þarf að gera ráð fyrir frekara rennsli til að koma í veg fyrir áfok og til að tryggja að grunnvatnsstaða innan friðlandsins haldist sem næst óbreytt.

Umhverfisstofnun vill ennfremur taka fram að það er álit stofnunarinnar, eftir að hafa kynnt sér tillögu Landsvirkjunar, að hærri lónstaða en 566 m y.s. hafi áhrif í Eyvafeni sem er utan við friðlandið. Hafa verður í huga að Skeiða- og Gnúpverjahreppur hefur sett fram hugmyndir um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum sem miða m.a. að því að Eyvafen verði innan þess. Þessar tillögur er að finna í drögum að Náttúruverndaráætlun sem Umhverfisstofnun hefur unnið og eru nú til almennrar kynningar. Endanleg ákvörðun um stækkun friðlandsins er í höndum Umhverfisráðherra, skv. 53. gr. NVL.

Umsögn um tillögu Landsvirkjunar að veitutilhögun við Norðlingaöldu, pdf skjal

Greinargerð með umsögn um veitutilhögun við Norðlingaöldu, pdf skjal