Stök frétt

Dagskrá Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls 21. júní – 15. ágúst 2003.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull býður gestum upp á fjölbreytta dagskrá með land­vörðum í sumar. Reglulegar göngu- og fræðsluferðir verða fjórum sinnum í viku og barnastundir þrisvar í viku. Önnur tilfallandi dagskrá verður auglýst sérstaklega. Þátttaka er gestum að kostnaðarlausu. Allir velkomnir.

Gönguferðir á vegum þjóðgarðsins Snæfellsjökuls

Barnastundir:

Í barnastundum hitta 6-12 ára börn landverði, rannsaka með þeim náttúruna, hlusta á sögur, fara í leiki og margt fleira skemmtilegt.

Laugardagur Kl. 11-12 Arnarstapi - við Arnarbæ 
 Sunnudagur Kl. 11-12 Ólafsvík - við tjaldstæðið 
Fimmtudagur Kl. 11-12  Hellissandur - við gróðurlundinn Tröð 

Gönguferðir:

1 Sunnudagsganga - Fiskbyrgi – Gufuskálavör:

Gestir hitta landverði kl. 14 á bílastæði við fiskbyrgin skammt sunnan Gufuskála. Gengið er til sjávar að Gufuskálavör þar sem sjá má kjalför báta í sjávarklöppum eftir aldalanga útgerð. Frá Gufuskálvör er gengið eftir ströndinni að Írskrabrunni og þaðan að fiskbyrgjunum í hrauninu. Létt 2 klst. ganga.

2 Mánudagsganga - Öndverðarneshólar:

Gestir hitta landverði kl. 14 við vegmót út á Öndverðarnes. Þaðan er ekið að upphafi gönguleiðar um Öndverðarneshóla. Gengið er um hólana, svo sem að Vatnsborgarhól og Grashól. Skemmtileg 3-4 klst. ganga um fallegar hraun­myndanir.

3 Miðvikudagsganga - Eysteinsdalur:

Gestir hitta landverði kl. 14 við vegamót í Eysteinsdal. Gönguleið ræðst af veðri og vindum. Við göngum ýmist til fjalla, svo sem á Hreggnasa eða höldum okkur á láglendinu og göngum t.d. að Blágili. Gangan tekur um 2-3 klst.

4 Laugardagsganga – Dritvík - Djúpalónssandur:

Gestir hitta landverði kl. 14 við bílastæðið á Djúpalónssandi. Þar er sameinast í bíla og haldið að bílastæði við Sandhóla. Þaðan er gengið til sjávar í Dritvík. Frá Dritvík er gengið yfir á Djúpalónssand leiðina sem vermenn gengu á öldum áður eftir vatni. Á leiðinni má sjá fiskreiti og völundarhús og á Djúpalónssandi eru steintök þar sem vermenn reyndu afl sitt. Gangan er auðveld og tekur um 2-3 klst.

Göngukort

Göngukort af Snæfellsjökulsþjóðgarði

Gönguleiðir:
Margar og fjölbreyttar gönguleiðir eru í og við Þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Allir ættu að geta fundið leið við sitt hæfi; stutta, langa, létta eða erfiða, meðfram ströndinni eða upp til fjalla. Sumar leiðanna eru stikaðar eða merktar og flestar er auðvelt að rata.

Vert er að hafa í huga að lítið er um drykkjarvatn í þjóðgarðinum og því nauðsynlegt að hafa eitthvað með sér að drekka þegar lagt er í göngu. Munum eftir góðum skóm og nesti. Góða ferð!

Upplýsingar:
Upplýsingarskrifstofa Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls er að Klettsbúð 7, húsi Íslands­pósts á Hellissandi. Þar eru veittar upplýsingar um dagskrá Þjóðgarðsins svo og annað sem gestir kunna að hafa spurningar um, s.s. gönguleiðir og áhugaverði staði. Opnunartími er virka daga frá 9:00-17:00 og 10:00-14:00 um helgar. Síminn er 436 6860 og fax 436 6861. Bílasími landvarða er 855 4260. Netfang er snaefellsjokull@ust.is og heimasíða er www.ust.is.



Tjaldstæði eru ekki innan þjóðgarðsins.

Hlífum gróðri og ökum ekki utan vega.

Tökum ekkert nema minningar og myndir,

skiljum ekkert eftir nema fótspor okkar!