Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Í dag lauk í Bremen í Þýskalandi fundi umhverfisráðherra aðildarríkja Samnings um vernd Norðaustur-Atlantshafsins (OSPAR).

Árið 1998 samþykkti OSPAR að horfið verði frá losun geislavirkra efna í hafið sem fyrst og eigi síðar en árið 2020. Á fundinum í Bremen var m.a. fjallað um aðgerðir ríkja til þess að ná þessu markmiði. Eins og fram hefur komið í fréttum hefur athyglin einkum beinst að kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield. Eftir viðræður milli Breta annars vegar og Íslands, Noregs, Írlands, Danmerkur, Svíþjóðar og Hollands hins vegar, náðist niðurstaða í málinu.

Í ályktun fundarins kemur fram að fjöldi ríkja telji að losun á geislavirka efninu teknitín-99 í sjóinn frá Sellafield skuli hætt nú þegar. Fundurinn lýsti yfir ánægju með nýleg tilmæli breskra stjórnvalda þess efnis að losun frá Sellafield skuli hætt í níu mánuði. Á því tímabili munu bresk stjórnvöld leita tæknilegra lausna sem duga til þess að geyma varanlega eða farga teknitín-99 í stað þess að losa það í sjó. Finnist slíkar lausnir vænta aðildarríki OSPAR þess að þeim verði beitt.

Þegar niðurstaða lá fyrir lýsti Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra yfir ánægju með að nú stefndi í að hætt verði fyrir full og allt að losa teknitín-99 í hafið svo framarlegar sem tæknilegar lausnir finnist til þess.

Nokkur umræða varð um nýlega úttekt Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) á ástandi fiskistofna og áhrifum fiskveiða á vistkerfin. Samkvæmt henni er ástandið í þessum efnum mjög alvarlegt í Norðursjó, Írska hafinu og Eystrasaltinu vegna ofveiði og slæms umhverfisástands. Staðan er mun betri við Ísland og Færeyjar m.a. annars vegna aðgerða stjórnvalda sem byggðar eru á vísindalegri ráðgjöf og langtímamarkmiðum. Fram kom í máli umhverfisráðherra á fundinum að mjög mikilvægt sé, vegna markaða okkar Íslendinga fyrir sjávarafurðir, að ekki verði alhæft og sagt að þorskstofnar séu í hættu allsstaðar því slíkt sé alls ekki raunin. Þetta sjónarmið var áréttað í niðurstöðu fundarins. Hins vegar voru þorskstofnar í Norðursjó og Írska hafinu settir á lista yfir tegundir sem eru í hættu.

Meðal annara mála sem afgreidd voru á fundinum um málefni hafsins voru leiðbeiningar um verndarsvæði í hafinu og stefnumörkun um það hvernig taka skuli tillit til heildarsamhengis í vistkerfum hafsins þegar teknar eru ákvarðanir um nýtingu þess.

Aðalfundur OSPAR verður haldinn í Reykjavík í lok júní 2004.