Stök frétt

Laugardaginn 28. júní verður haldið upp á afmæli þjóðgarðsins með dagskrá í Ásbyrgi.

Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum liggur vestan Jökulsár á Fjöllum, frá Dettifossi og norður að þjóðvegi við Ásbyrgi. Markmiðið með stofnun þjóðgarðsins var annars vegar að vernda gljúfur Jökulsár á Fjöllum og umhverfi þeirra, landslag og lífríki og hins vegar að veita almenningi aðgang að svæðinu til náttúruskoðunar og útivistar. Mikill fjölbreytileiki og miklar andstæður einkenna þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum. Af þekktum stöðum innan þjóðgarðsins má helst telja Ásbyrgi, Dettifoss, Hljóðakletta og Hólmatungur. Um þjóðgarðinn liggja margar skemmtilegar gönguleiðir þar sem allir geta fundið sér eitthvað við hæfi.

Laugardaginn 28. júní verður haldið upp á 30 ára afmæli þjóðgarðsins með dagskrá í Ásbyrgi. Um daginn verður ratleikur verður fyrir alla fjölskylduna. Kl. 14:00 verður farið í 2-3 klst gönguferð frá fyrirhugaðri Gljúfrastofu í mynni Ásbyrgis og gengið inn í Ásbyrgi eftir nýjum skógarstíg. Kl. 20:00 munu Álftagerðisbræður syngja nokkur lög á gamla danspallinum í Ásbyrgi og í framhaldi af því verður leikið á harmonikku, sungið og dansað.

Dagskrá hátíðarinnar

Íþróttavöllur í Ásbyrgi.

18:00 Ávarp gestgjafa, Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir þjóðgarðsvörður

18:10 Ávarp, Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra.

18:25 Ávarp, Davíð Egilsson forstjóri Umhverfisstofnunar.

18:40 Hugleiðing oddvita, Katrín Eymundsdóttir oddviti Kelduneshrepps.

18:50 Veitingar, Norður Þingeysk framreiðsla.

Danspallur í Ásbyrgi.

20:00 Álftagerðisbræður syngja nokkur lög. Harmonikkuleikur og söngur.

Áætluð dagskrárlok kl. 22:00.

Dagskrá að deginum.

10:00 – 17:00 Ratleikur fyrir fjölskylduna. Leiðbeiningar fást hjá landvörðum í Ásbyrgi milli kl. 10-14.

14:00 – 17:00 Gönguferð frá fyrirhugaðri Gljúfrastofu og inn í Ásbyrgi eftir nýjum skógarstíg.

14:00 – 15:00 Stutt gönguferð um innsta hluta Ásbyrgis. Hefst við bílastæðið.


Verið velkomin