Stök frétt

Mynd: Evan Wise
Flestum finnst grillaður matur góður og sérstök stemning að grilla úti, en það getur verið erfitt, einkum fyrir þá sem ekki eru komnir með mikla grillreynslu, að láta allt vera tilbúið á sama tíma. Og ekki gengur alltaf jafn vel að láta hitna vel í kolunum.

En það er einmitt mjög mikilvægt að gegnsteikja fuglakjöt og hakkað kjöt (hamborgara) en um leið að passa að ekkert brenni. Mikilvægt er að fara eftir þessu því nokkur hætta er á matarsýkingum ef ekki tekst vel til. Skoðum þetta betur.

- grillum ekki yfir logandi kolum, bíðum þar til eldurinn slokknar og kolin glóa-
- gegnsteikjum hakkað kjöt (hamborgarar), fuglakjöt og svínakjöt -
- látum hráan kjötsafa ekki berast á grillaðan mat, eða hrásalatið -
- látum kjötið ekki brenna -
- látum fitu ekki leka niður á kolin -

Hakkað kjöt, fuglakjöt og svínakjöt á að gegnsteikja

Kjúklingar og annað fuglakjöt
Miklum árangri hefur verið náð í útrýmingu Salmonellu og Campylobacter úr kjúklingum hér á landi. Þó verður að gera ráð fyrir að Campylobacter geti verið í kjúklingum og öðrum alifuglum. Því er mjög mikilvægt að gegnsteikja fuglakjöt.
Salmonella hefur komið upp á svínabúum, en hefur þó ekki fundist í svínakjöti á markaði.

Hakkað kjöt (hamborgarar)
Rétt er að gera ráð fyrir að sjúkdómsvaldandi bakteríur geti verið í kjötinu. Á heilum kjötstykkjum eru bakteríur fyrst og fremst á yfirborði, þær drepast því fljótt við grillun þó kjötið sé ekki alltaf gegnsteikt. En bakteríur dreifast um allt kjötið þegar það er hakkað, þess vegna er nauðsynlegt að gegnsteikja hamborgara og aðrar rétti úr hakki.

Það þarf 2 til...

Mjög mikilvægt er að kjötsafi/blóð úr hráum kjúklingum/ kjöti berist ekki á kjötið sem búið er að steikja. Þess vegna þarf að nota annað fat, ílát, bretti fyrir grillaða matinn en notað var fyrir hráa kjötið.
Það þarf líka að nota aðra töng og önnur áhöld en notuð voru á hráa kjötið.
Á sama hátt þarf að tryggja að kjötsafi/blóð af hráu kjöti berist ekki á hrásalat eða annað meðlæti.
Bakteríur t.d. Campylobakter berast með höndum, áhöldum og ílátum og það eitt að þvo sér ekki um hendur getur dugað til að sýkjast!
Gætið hreinlætis.

Ekki borða brenndan mat

Við grillun er mikilvægt að gefa sér góðan tíma. Það þarf að bíða þar til ekki logar lengur í kolunum, og eingöngu er glóð í þeim þegar maturinn er settur á. Maturinn verður bragðgóður og hvorki þurr né brenndur.
Brenni hann spillir það bragðinu og heilsuskaðleg efni hafa myndast (geta aukið líkur á krabbameini). Þá er rétt að skera af það sem hefur brunnið. Til þess að hindra þetta er gagnlegt að hafa álpappír undir.

Notum álpappír eða marineringu án olíu.

Fita frá kjöti eða marineringu á það til að leka niður í kolin eins og margir þekkja. Það er slæmt því þá fer að loga í kolunum og reykur með tjöruefnum sest á kjötið. Hægt er að forðast að fitan leki niður á kolin með því að setja álpappír undir matinn og það er hægt að velja marineringu án olíu. Einnig eru til lóðrétt grill, þar sem kolin eru til hliðar við matinn og feitin lekur þá ekki á þau.