Stök frétt

Bláfáninn er alþjóðlegt umhverfismerki sem nýtur virðingar víða sem tákn um góða umhverfisstjórnun og öryggismál í smábátum, smábátahöfnum og á baðströndum. Árlega fá um 3000 baðstrandir og smábátahafnir í Evrópu heimild til að draga bláfánann að húni.

Undirbúningur fyrir Bláfánaverkefnið hér á landi hófst haustið 2000, en grænfáninn hefur þegar verið veittur í íslenskum skólum sem eru til fyrirmyndar í umhverfismálum og fræðslu.

Afhending Bláfánans á Íslandi verður í Bláa lóninu fimmtudaginn 5. júní kl. 13.00. Þá er ráðgert að afhenda Bláfánann í Nauthólsvík, laugardag 7. júní kl. 11.00.

Síðar í júní munu smábátahafnirnar í Stykkishólmi og í Borgarfirði eystra verða fyrstar hafna á Íslandi til að hljóta þess viðurkenningu.

Landvernd vinnur að framkvæmd Bláfánans í samstarfi við Umhverfisstofnun, Félag umhverfis- og heilbrigðisfulltrúa, Fiskifélag Íslands, Hafnasambandið, og Samtök ferðaþjónustunnar.

Í sumar verður smábátum boðinn Bláfánaveifa gegn því að þeir undirriti sérstakan sáttmála um umgengni við hafið.