Stök frétt

Á síðasta þingi var samþykkt að bæta fjárframlög til reksturs þjóðgarða um 15.000.000 kr. árlega. Með þessari ráðstöfun er Umhverfisstofnun gert kleift að fjölga heilsársráðnu starfsfólki í þjóðgörðum en það verkefni var orðið afar brýnt.

34 sóttu um störfin sem flestir uppfylltu settar kröfur um menntun og reynslu.

Eftirtaldir hlutu ráðningu:

Í þjóðgarðinn Snæfellsjökull: Margrét Valdimarsdóttir. Margrét er landfræðingur frá Háskóla Íslands og starfaði hjá Landmælingum Íslands við stafræna kortagerð á árunum 1996-1998, stundaði nám í Noregi og við Háskóla Íslands og lauk MS gráðu 2001. Margrét hefur réttindi og reynslu sem leiðsögumaður. Undanfarin ár hefur hún starfað sem landfræðingur hjá verkfræðistofunni Hönnun hf við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.

Í þjóðgarðinn í Skaftafelli: Kjartan Bollason. Kjartan hefur B.A próf í þýskum og enskum bókmenntum frá Augsburg í Þýskalandi og frá Háskóla Íslands. Hann starfaði við kennslu á Hellissandi og í Ólafsvík á árunum 1996-1998 og sem leiðsögumaður erlendra ferðamanna á árunum 1994-1999. Kjartan starfaði hjá Skipulagsstofnun og VSÓ Ráðgjöf 2000-2002 og lauk MA prófi í umhverfisfræðum frá Háskóla Íslands 2002.

Í þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum: Kári Kristjánsson. Kári er einn reyndasti landvörður okkar og er þekktur fyrir þekkingu sína á hálendi Íslands. Kári er húsgagnasmiður að mennt og hefur starfað sem fræðslufulltrúi hjá Vinnueftirliti ríkisins á veturna og sem landvörður á hálendinu norðan Vatnajökuls á sumrin. Kári leysti þjóðgarðsvörð í Jökulsárgljúfrum af í eitt og hálft ár og er því vel kunnugur staðháttum.