Stök frétt

Frigg hf hefur nú endurnýjað leyfi sitt til notkunar á Norræna umhverfismerkinu Svaninum fyrir þvottaduftið Maraþon Milt í 1,5 kg pakkningum. Skilyrðin fyrir notkun umhverfismerkisins á þvottaefni hafa verið endurskoðuð og hert til muna í samræmi við framfarir á sviði umhverfismála í þessum framleiðslugeira. Endurnýjun leyfisins er því staðfesting þess að Frigg uppfyllir þessar hertu kröfur fyrir þvottaefnið Maraþon Milt sem er því áfram í flokki þeirra þvottaefna sem minnstu umhverfisálagi valda.

Þá hefur Frigg einnig fengið útvíkkun á leyfinu til notkunar á Norræna umhverfismerkinu fyrir Maraþon Milt í 10 kg stórnotendaumbúðum. Með vottun á stórnotendaumbúðum er Frigg að koma til móts við aukna eftirspurn hótela, bændagistinga, stofnana og annara sem tekið hafa upp græna umhverfisstefnu.

Frigg hf er frumkvöðull á sviði umhverfismerkinga hér á landi. Maraþon Milt var fyrsta íslenska framleiðslan sem uppfyllti kröfur Norræna umhverfismerkisins og endurnýjun og útvíkkun leyfisins nú sýnir svo ekki verður um villst að Frigg er enn í fararbroddi á sviði umhverfismála.

Til að fá vottun Norræna Umhverfismerkisins þarf viðkomandi fyrirtæki að uppfylla kröfur opinberra aðila viðkomandi lands varðandi lög og reglur um öryggi og aðbúnað starfsmanna og mengunarvarnir, en einnig eru gerðar kröfur um gæðastjórnun og sérstök ströng skilyrði er varða umhverfisálag þeirrar vöru sem vottuð er. Auk þessa þarf þvottaefnið að sýna góða þvottavirkni, þannig að gæðin eru einnig tryggð.