Fjaðrárgljúfur

Umhverfisstofnun í samstarfi við samstarfsnefnd náttúruvættisins í Fjaðrárgljúfri vinnur nú að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir svæðið. Hluti Fjaðrárgljúfurs var friðlýstur sem náttúruvætti þann 11. maí 2024 en svæðið er um 0,15 ferkílómetrar að stærð.

Fjaðrárgljúfur er um 1,5 km á lengd og mesta dýpt um 100 m. Það er gott dæmi um virk ferli landmótunar sem hófst í lok síðustu ísaldar fyrir um 10.000 árum og er enn í gangi. Ofan við Fjaðrárgljúfur eru malarhjallar sem benda til þess að jökullón hafi myndast fyrir framan hörfandi jökul og vegna fyrirstöðu sem lá efst í núverandi gljúfri. Lónið hefur fyllst tiltölulega fljótt upp af framburði, en vatnsmiklar og aurugar jökulár áttu síðar auðvelt með að rjúfa sér farveg í undirliggjandi berggrunn úr móbergi. Innst í Fjaðrárgljúfri eru fossar og þó að Fjaðrá sé mun kraftminni en vatnsmiklu jökulárnar í lok ísaldar, þá er landmótun gljúfursins enn í gangi.

Fjaðrárgljúfur hefur mikið fræðslugildi er varðar virka landmótun, þar er gott aðgengi og er svæðið vinsæll áningarstaður ferðamanna.