Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Hellir við Jarðböðin

Áform um friðlýsingu hraunhellis við Jarðböðin í Mývatnssveit

Náttúruverndarstofnun, ásamt landeigendum Voga, kynnir hér með áform um friðlýsingu hraunhellis við Jarðböðin í Mývatnssveit sem náttúruvé og náttúruvætti í samræmi við 45.gr. og 48. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Markmið friðlýsingarinnar er að stuðla að vernd jarðfræðilegrar fjölbreytni og vernda helli sem er einstakur á heimsvísu. 

Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 19. mars 2025. Athugasemdum má skila með tölvupósti á netfangið nattura@nattura.is eða með pósti til Náttúruverndarstofnunar, Urriðaholtsstræti 6-8, 210 Garðabæ.

Nánar um hellinn

Náttúrufræðistofnun metur hraunhella almennt sem fágætar náttúruminjar á heimsvísu og er verndargildi þeirra mjög hátt. Hellirinn við Jarðböðin í Mývatnssveit fannst þegar verið var að grafa grunn að nýjum byggingum Jarðbaðanna, en virðist hafa verið vel lokaður fram að því af náttúrunnar hendi. Hann er í hrauni sem talið er um 8.000 ára gamalt og kemur úr stórum gíg skammt austan við Jarðböðin. Ofan á hrauninu er móhella og jarðvegur með gjóskulögum, þar á meðal ljósum gjóskulögum frá Heklu. Ofan á það leggst Hverfjallsaska og gjall úr Jarðbaðshólum. Umhverfisaðstæður í hellinum hafa verið mjög óvenjulegar þar sem þar gætt hefur jarðhita í lokuðu og einangruðu rými um langt skeið. Hitinn hefur líklegast orsakast af heitri gufu frá háhitasvæðinu sem streymt hefur inn í hellinn um sprungur. Á gólfi og veggjum hellisins eru ljósar útfellingar. Þær eru allt að 7 cm langar og líkjast kóröllum og eru afar viðkvæmar. Útfellingarnar eru úr algengum tegundum steinda, en lögun og stærð þeirra þykir mjög sérstök. Ekkert sambærilegt hefur fundist í öðrum hellum á Íslandi og jafnvel ekki á heimsvísu. Eru útfellingar meira í ætt við það sem finnst í kalksteinahellum erlendis frekar en hraunhellum. 

Frekari upplýsingar veita Davíð Örvar Hansson, david.o.hansson@nattura.is og Dagbjört Jónsdóttir, dagbjort.jonsdottir@nattura.is eða í síma 55 66 800.